Upplýsingamiðstöð verður í Hofi í sumar
Upplýsingamiðstöð ferðamanna var opnuð í Hofi á mánudaginn. Opið verður alla daga frá kl. 10.00 til 15.00 en yfir hásumarið, frá 1. júní til 31. ágúst, frá kl. 8.00 til 16.00
Á vef Akureyrarkemur segir að upplýsingamiðstöðinni sé fyrst og fremst lögð áhersla á að miðla upplýsingum til ferðamanna um Akureyri og næsta nágrenni. Ferðaþjónustuaðilar um allt Norðurland eru hvattir til að koma með kynningarefni sitt í Hof svo hægt verði að segja frá öðrum helstu dásemdum landshlutans.
„Það er vel við hæfi að opna upplýsingamiðstöðina núna þegar líður að vori og komu skemmtiferðaskipa til bæjarins. Von er á fyrsta skipi ársins til Akureyrar þann 14. apríl en þá kemur AIDAsol með um 2.194 farþega og 646 manna áhöfn,“ segir í tilkynningunni.
„Skipakomur til Eyjafjarðar verða um 258 í sumar með viðkomu á Akureyri, í Hrísey og Grímsey.“ Það eru fimm færri heimsóknir – um 2% – en í fyrra. „Einblínt hefur verið á að bæta þjónustu og tímasetningar skipa fremur en að fá fleiri skip í höfn, samkvæmt Jóhönnu Tryggvadóttur, verkefna- og markaðsstjóra hjá Akureyrarhöfn.“
Það eru Hafnasamlag Norðurlands, Menningarfélag Akureyrar, hönnunar- og gjafavöruverslunin Kista og Akureyrarbær sem hafa tekið höndum saman og standa að rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar. „Þetta er sami hópur og staðið hefur að opnun hennar síðustu tvö sumur, en því miður varð að loka upplýsingamiðstöðinni fyrir fjórum árum þegar ríkið hætti að styðja reksturinn með fjárframlagi sínu.“