Fara í efni
Fréttir

Tanja Lea og Björgvin Breki fengu Kiwanis hjól

Stefán Jónsson, upphafsmaður hjálmaverkefnisins, Tanja Lea Birkisdóttir, Jóhannes Steingrímsson, formaður hjálmanefndar Kaldbaks og Björgvin Breki Kristinsson. Mynd: Þorgeir Baldursson

Félagar í Kiwanisklúbbnum Kaldbaki á Akureyri færa þessa dagana öllum nemendum 1. bekkjar grunnskóla bæjarins reiðhjólahjálm að gjöf.

Tvö börn, stúlka og drengur, voru dregin út eins og venja er og fengu glæsileg reiðhjól afhent um leið og hjálminn, í húsakynnum Kaldbaks við Óseyri á laugardaginn. Þau heppnu eru Tanja Lea Birkisdóttir og Björgvin Breki Kristinsson.

Þetta er hvorki meira né minna en 34. árið í röð sem Kaldbaksmenn á Akureyri vinna þetta góðverk og koma raunar færandi hendi í fleiri skóla en innan bæjarmarkanna því þeir sjá um afhendingu á stórum hluta Eyjafjarðarsvæðisins, út til Dalvíkur, fram í fjörð og út að austan alveg til Grenivíkur.

Verkefnið, sem hófst á Akureyri, er nefnilega fyrir löngu orðið að landsverkefni, samstarfsverkefni Kiwanis hreyfingarinnar og Eimskips. 

Akureyri.net rifjaði upp fyrir ári síðan hvernig þetta mikla ævintýri kom til. Það var Stefán Jónsson, þáverandi formaður Kaldbaks, sem kom með þá hugmynd árið 1991 að klúbburinn gæfi öllum sjö ára börnum á Akureyri hjálm. Verkefnið varð að veruleika og gekk afar vel með aðstoð fyrirtækja í 13 ár en þá kom Eimskip að málinu og það varð að landsverkefni. Síðan eru liðin 20 ár og á þeim tíma hafa öll börn 1. bekkjar grunnskóla hér á landi fengið hjálm að gjöf frá Kiwanishreyfinguni og Eimskipum.

Umfjöllun Akureyri.net frá því í fyrra: Kiwanis passar upp á kollinn á krökkunum!