Smíðaði hundrað myntmottur fyrir Frost
Kælismiðjan Frost gefur öllum starfsmönnum sínum mottu-barmnælur í tilefni Mottumars, sem er handan við hornið. Það er þúsundþjalasmiðurinn og vélsmiðurinn Hörður Óskarsson sem smíðar nælurnar úr mynt – gömlum einnar krónu og fimm krónu peningum og kallar Myntmottur.
Sagt er frá þessu í skemmtilegri grein á heimasíðu Frost.
„Næstkomandi föstudag, 1. mars, hefst Mottumars - hið árlega átak Krabbameinsfélags Íslands og aðildarfélaga þess um allt land,“ segir þar. „Mottumars er hvatningarátak til karla um að halda vöku sinni gagnvart þeim vágesti sem krabbamein er og í ár er lögð áhersla á gildi hreyfingar sem forvarnar gegn krabbameinum. Jafnframt hefur Mottumars það að markmiði að safna fjármunum til þess að styrkja krabbameinsfélögin í landinu í sínu þarfa og mikilvæga starfi.“
Mottumars vísar vitaskuld til mottunnar, yfirvaraskeggsins sem karlmenn safna og skarta sérstaklega í mars til þess að vekja athygli á þessu forvarnaátaki og sýna stuðning sinn í verki.
Fjölbreytt skart úr gamalli mynt
Hörður Óskarsson hefur haft það áhugamál frá 2017 að smíða skartgripi af ýmsum toga úr gamalli mynt. Í byrjun smíðaði hann hringi úr myntinni en síðan hefur smíðin þróast og til hefur orðið fjölbreytt skart, m.a. Myntmotturnar. Smíðagripi sína kynnir Hörður á Facebooksíðunni Mynthringar og allskonar.
Vert er að geta þess að myntmottur Harðar eru til sölu hjá Krabbameinsfélagi Íslands og Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Einnig er hægt að panta þær í gegnum Facebook síðu hans sem áður var nefnd.
Á meðfylgjandi myndum eru starfsmenn Frost á Akureyri og í Garðabæ með Akureyri með myntmotturnar í barmi sér. Einnig eru myndir af myntmottunum, myntpeningum eins og Hörður hefur smíðað motturnar úr og ýmsum öðrum smíðagripum sem hafa orðið til í höndum Harðar.