Fara í efni
Fréttir

Sektaður um 87 milljónir vegna skattsvika

At­hafn­ar­maður­inn Kristján Ólaf­ur Sig­ríðar­son hefur verið dæmdur í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 87,4 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs vegna stórfelldra skattalagabrota sem hann var fundinn sekur um árin 2017 og 2019. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.

Kristján Ólafur var fenginn til þess af Eik fasteignafélagi, eiganda Glerártorgs, að stofna mathöll í verslunarmiðstöðinni og er titlaður rekstrarstjóri mathallarinnar. Undanfarið hefur verið auglýst eftir áhugasömum til að koma þar inn með veitingarekstur.

Brotin sem Kristján Ólafur var dæmdur fyrir felast í því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti upp á 9,9 milljónir króna og staðgreiðslu opinberra gjalda upp á 9,2 milljónir króna. Þá nemi vantaldar tekjur samtals um 55,3 milljónum króna, auk þess sem hann er sakaður um að hafa ekki gefið upp leigutekjur upp á 4,6 milljónir króna. Þannig hafi hann komist hjá því að greiða 24,2 milljónir í tekjuskatt og um 500 þúsund í fjármagnstekjuskatt.

Kristján Ólafur gekkst við því fyrir dómi að hafa skilað inn röngum framtölum og gerði ekki athugasemdir við fjárhæðir í ákærunni, en taldi hins vegar að þar sem upphæð skattabrota hafi ekki náð 50 milljónum króna hafi átt, samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara frá árinu 2021, að klára málið fyrir skattayfirvöldum. Hann vísaði til þess að vangreiddir skattar hans væru í dag 43,7 milljónir, en hann hefur greitt um 18 milljónir inn á skuldir sínar, að því er fram kemur í frétt mbl.is. Dómari hafnaði þessum röksemdum og sagði heildarbrot Kristjáns Ólafs nema tæpum 60 milljónum króna. Greiðsla inn á skuldina komi til skoðunar við ákvörðun refsingar, en á móti auki það á saknæmi hans að hann hafi við rannsókn málsins ekki kannast við málið, hann væri búinn að greiða sekt vegna skattamála sinna og að auki hafi hann bent á annan mann sem hann sagði hafa borið ábyrgð á rekstri félagsins. Hann hafi svo breytt afstöðu sinni fyrir dómi.