Fara í efni
Fréttir

Rafskútuleigjendur óku yfir 200.000 km

Á árinu 2023 voru farnar 116.835 ferðir á Hopp-hjólum innan Akureyrar. Aukningin er 30% frá árinu á undan. Notendur fóru yfir 200 þúsund kílómetra, eða að meðaltali sex ferðir og 11 kílómetra á hvern íbúa bæjarins. Þetta kemur fram í stöðuskýrslu Hopp Staða markaðarins Áhrif deilirafskúta á samgöngur í þéttbýli sem kynnt var fyrir umhverfis- og mannvirkjaráði Akureyrarbæjar í lok janúar.

Starfsemi Hopp hófst á Akureyri sumarið 2021 og var bærinn sá fyrsti fyrir utan höfuðborgarsvæðið þar sem rafskúturnar frá Hopp voru í boði. Í inngangi að stöðuskýrslunni segir Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopp, meðal annars: Öllum breytingum fylgir núningur, sérstaklega þegar um er að ræða grundvallarbreytingu á málaflokki eins samfélagslega áhrifamiklum og samgöngur. Það er okkar sameiginlega ábyrgð að sjá til þess að breytingarnar séu eins jákvæðar og hægt er, á sama tíma og við reynum hvað við getum til þess að draga úr þeim núningi sem getur myndast. Jafnframt er bent á að þrátt fyrir að deilirafskútur fái mikla umfjöllun og séu mikið í sviðsljósinu séu þær aðeins um 20% allra rafskúta sem til eru í landinu. Hér séu til um 40 þúsund rafskútur í einkaeigu, en um fimm þúsund í útleigu.

Fáar tilkynningar miðað við fjölda ferða

Höfundur stöðuskýrslunnar fer einnig yfir þann núning sem fylgir breytingum og nýjum samgöngumáta. Meðal þess sem farið hefur illa í sumt fólk er hvernig notendur skilja við rafskúturnar. Um þennan þátt segir meðal annars í stöðuskýrslunni að kergja sem starfsemi rafskútuleigu, sem krefjist þess í eðli sínu að hægt sé að leggja nánast alls staðar, sé vegna tillitsleysis við lagningu og frágang rafskútanna. 

Ef miðað er við fjölda tilkynninga sem koma á okkar borð hefur ástandið batnað eftir því sem tímanum líður, þrátt fyrir að við höfum fjölgað skútum gríðarlega og notkun aukist í takt við það,“ segir í skýrslunni um þessa hlið starfseminnar og að þessi fararmáti hafi verið til staðar hér í fjögur ár, fólk sé því skiljanlega enn að læra hvernig best er að nýta sér hann á ábyrgan hátt. Jafnframt bendir höfundur á samhengið milli fjölda tilkynninga og fjölda ferða sem farnar voru á rafskútum frá fyrirtækinu á árinu 2023. Þegar skýrslan var samin undir lok árs 2023 höfðu verið farnar 2,3 milljónir ferða á Íslandi á árinu og fyrirtækið fengið 1.043 tilkynningar um slæma lagningu. 

Rafskútur í útleigu öruggari en einkaskútur

Umræða um slys á rafskútum hefur verið áberandi og segir höfundur stöðuskýrslunar hana þarfa. Allt sem geti skapað öruggara umhverfi í umferðinni sé af hinu góða og opin umræða um slys, hvað veldur þeim og hvernig er hægt að breyta hegðun til að lágmarka eigin áhættu geti ekki annað en dregið úr þeim.  „Það er kaldur sannleikur að slys eru náttúruleg hliðarverkun allra samgangna, hvernig sem þær eiga sér stað. Það er okkar sameiginlega verkefni sem einstaklingar, fyrirtæki, sveitarfélög og löggjafi að gera hvað við getum til þess að lágmarka áhættuna sem orsakast af ferðalögum fólks án þess að hefta getu þeirra til að komast leiðar sinnar um of,“ segir höfundur um slysatíðnina.

Hann bendir þó jafnframt á að mikilvægt sé að horfa á fjölda slysa í samhengi við umfang umferðarinnar. Samkvæmt tölum Samgöngustofu hafi 49 manns slasast á alvarlegan hátt á rafskútum á árinu 2022. Í þessu samhengi kemur hann aftur inn á muninn á rafskútum til leigu og rafskútum í einkaeigu, ásamt því hvert hlutfall deilirafskúta er af fjölda rafskúta sem til eru í landinu. „En rafskútur í útleigu eru almennt öruggari heldur en rafskútur í einkaeigu. Fyrir utan að vera með stærri dekk, að vera sterkbyggðari, betur lýstar, betur dempaðar og undir stanslausu viðhaldi fagfólks er stærsti öryggisþátturinn við deilirafskútur að það er ekki hægt að eiga við hraðatakmarkarann í þeim.“ Verstu rafskútuslysin gerist á þeim sem átt hafi verið við og komast hraðar en 25 km/klst. 

Um þá hugmynd að loka slíkri þjónustu á kvöldin og að nóttu til sem lausn á slysavandamálinu segir hann að sú lausn takmarki á sama tíma á óæskilegan hátt aðgengi venjulegra notenda sem af einhverri ástæðu þurfi að vera á ferli utan þess tíma sem strætisvagnar ganga, svo sem fólk á næturvöktum, vöktum sem byrja snemma eða bara nátthrafnar.

Skortir rannsóknir og tölfræði

Í samhengi við umræður um slys og slysatíðni, ásamt vangaveltum um hertari reglur bendir höfundur á að þörf sé á ítarlegri rannsóknum og gögnum um notkun rafskúta, meðal annars með aðgreiningu á milli deilirafskúta og rafskúta í einkaeigu. Það sem helst vanti fyrir upplýstari ákvarðanatöku segir hann vera betri tölur og ítarlegri gögn. Eðli málsins samkvæmt sé þjónusta sem hefur aðeins verið til staðar í fjögur ár „ekki syndandi í upplýsingum“ en fyrirtækið sé stöðugt að bæta sig og verða betra í að safna og miðla gögnum um þjónustuna sem og að átta sig á hvaða gögnum er best að safna. 

Hopp getur að því sögðu ekki séð um að safna og miðla öllum gögnum sem gætu verið gagnleg til ákvarðanatöku um örflæði,“ segir enn fremur um þessa hlið málsins. Þar þurfum við að reiða okkur á eftirlitsstofnanir og viðbragðsaðila á borð við Samgöngustofu, Landlæknisembættið, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, Tollstjóraembættið og hinar ýmsu bráðamóttökur til að geta skilið betur umfang þjónustunnar. Veigamesta atriðið sem skorti í öll gögn tegndum rafskútum segir hann vera aðgreiningu á milli farartækja í leigu og farartækja í einkaeigu. „Fyrir slysatölur er sérstaklega erfitt að eiga ekki þessa aðgreiningu, sérstaklega í ljósi þess að rafskútur í einkaeigu geti farið mun hraðar en rafskútur í leigu. Sömuleiðis vantar skýrari mynd á þau slys sem eiga sér stað á rafskútum, en það eru allar líkur á því að léttvægari slys séu mjög vantilkynnt.