Fara í efni
Fréttir

Kótelettur, sokkar og „Kallaútkall“ í Mottumars

Marta Kristín Rósudóttir, verkefnastjóri KAON, Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Mynd: aðsend.

„Það er uppselt á kótelettukvöldið okkar,“ segir Marta Kristín Rósudóttir, verkefnastjóri KAON, Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Kótelettukvöldið er einn af þeim viðburðum sem verða í boði á Akureyri í marsmánuði í tilefni af Mottumars svokölluðum. „Það eru seldir 120 miðar, en kótilettukvöldið verður haldið á Vitanum kvöldið 7. mars.“

Á hverju ári er áhersla á eitthvað ákveðið í Mottumars. Skilaboðin frá Krabbameinsfélaginu eru einföld þetta árið. „Með „Kallaútkalli“ eru karlar hvattir til þess að hreyfa sig, því hreyfing dregur úr líkum á krabbameinum. Öll hreyfing gerir gagn,“ segir Marta. 

Þó að það sé orðið of seint að tryggja sér sæti í kótelettuveislunni, er fleira í boði. Steinar B. Aðalbjörnsson, næringarfræðingur frá Krabbameinsfélaginu heimsækir Akureyringa og mun hann bæði halda fyrirlestur og bjóða upp á ráðleggingar við innkaup í sérstökum matvörubúðarferðum. Fyrirlesturinn og búðarferðin er ókeypis og öllum opin. „Við óskum eftir því að fólk skrái sig, en þann 5.mars kl. 9.30 verður búðarferð og fyrirlesturinn er kl. 19.30, sama dag, á Amtsbókasafninu,“ segir Marta. Skráning fer fram á kaon@krabb.is eða í síma 4611470.

Einnig verður leiksýningin Til hamingju með að vera mannleg sýnd í Hofi þann 16.mars, en þar fylgir listakonan Sigríður Soffía Birgisdóttir eftir ljóðabók sinni, sem fjallar um það að greinast með krabbamein. 1000 kr. af hverjum seldum miða rennur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Hér eru frekari upplýsingar um viðburðinn. 

Mottumarssokkarnir í ár eru komnir í sölu. Mynd: Mottumars.is  

Mottumars er árlegt átak Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá körlum. Hrint er af stað fjáröflun sem styður við starf Krabbameinsfélagsins. Til dæmis eru karlar hvattir til þess að safna mottu, og safna svo áheitum á heimasíðu Mottumars. Einnig hefur Krabbameinsfélagið sérstaka sokka til sölu, sem eru gjarnan sérhannaðir og í ár er það fyrirtækið 'As we grow' sem hannar sokkana, sem eru komnir í verslanir um land allt. 

Á vef Mottumars, sem Krabbameinsfélag Íslands heldur utan um, segir að reglubundin hreyfing hafi ótvírætt gildi fyrir almenna heilsu og vellíðan. Það sem meira er um vert, hafa rannsóknir sýnt fram á, með afgerandi hætti að hreyfing dragi úr líkum á krabbameinum og ýmsum öðrum sjúkdómum. Þar segir einnig að hægt sé að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl.