Fara í efni
Fréttir

Fleiri einbýlishús til sölu en nokkru sinni

Krókeyrarnöf 1 er dýrasta einbýlishúsið á Akureyri um þessar mundir. Ásett verð er 174.900.000 kr.

Sala fasteigna á Akureyri er hæg en góð um þessar mundir að sögn fasteignasala sem Akureyri.net ræddi við. Óvenjumikið af einbýlishúsum er nú á söluskrá, margir vilja hreyfa sig en spilin ganga ekki alltaf upp.

Akureyri.net fékk þrjá fasteignasala til að svara nokkrum spurningum um stöðuna á fasteignamarkaðinum í bænum. Þetta eru Tryggvi Gunnarsson hjá Eignaveri, Sigurður S. Sigurðsson hjá Hvammi og Friðrik Einar Sigþórsson hjá FS fasteignum.

  • Hvernig myndirðu lýsa fasteignamarkaðinum á Akureyri núna ?

Friðrik hjá FS fasteignum: „Markaðurinn undanfarið hefur verið kaupendavænn. Eignir hreyfast frekar hægt en allt selst samt að lokum. Fólk fær tíma núna til að hugsa málið án þessa æsings sem var hér fyrir tveimur árum. Það eru margir sem vilja hreyfa sig en spilin ganga ekki alltaf upp. Það er mikið um keðjur og margar sölur sem falla af því að keðjan gengur ekki upp. En það er spenna í uppsiglingu Þetta snýst allt um komandi kjarasamninga. Ef verðbólgan fer niður og vextirnar lækka þá fer allt af stað.“

Tryggvi hjá Eignaveri: „Fasteignaumræðan í fjölmiðlum hefur verið frekar neikvæð og einskorðast við höfuðborgarsvæðið en ástandið hér á Akureyri er bara fínt. Það hefur verið fínt að gera þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankastjóra. Síðasta ár var t.d. mun betra en við áttum von á og ég held ég tali þar fyrir hönd allra fasteignasala á Akureyri. Hvað þetta ár varðar þá er ég bara bjartsýnn. Það vantar vissulega meira jafnvægi á markaðinn, þ.e.a.s. að fyrstu kaupendur komist inn, en ef verðbólga og vextir lækka á næstu mánuðum þá á ég von á að markaðurinn verði mjög líflegur. Margir eru að halda að sér höndum akkúrat núna en eru tilbúnir um leið og eitthvað breytist í vaxtamálum.“

Nýjar íbúðir í miðbæ Akureyrar eru nú til sölu við Hofsbót 2 og ein íbúð er eftir í nýju fjölbýli við Skipagötu 10.

Sigurður – „Markaðurinn er að lifna við eftir jólin en það eru fleiri eignir að koma inn á markaðinn en fara út. Það er óvenjumikið af einbýlishúsum á sölu á Akureyri núna. Ég held ég hafi bara aldrei séð jafnmörg á mínum 20 ára ferli sem fasteignasali. Þetta er mikill viðsnúningur því fyrir um einu og hálfu ári síðan en þá voru mjög fá einbýli á sölu hér. Það er hins vegar erfiðara að selja stærri eignir núna sem kosta orðið um og yfir 100 milljónir. Fólk þarf að hafa ansi háar tekjur til að standast greiðslumat á stærri eignum, auk þess sem margir treysta sér ekki í þau vaxtakjör sem nú bjóðast.“

Friðrik – „Mér finnst vera nokkuð um það að foreldrar séu að hjálpa börnunum sínum við að komast inn á markaðinn. Við höfum selt nokkrar slíkar íbúðir því fólk trúir því að fasteignaverð stígi um leið og það verður vaxta- og verðbólgu lækkun. Krakkarnir eru ekki endilega að fara að flytja strax í þessar íbúðir heldur fara þær beint í útleigu.“

  • Hvert er meðalfermetraverð á Akureyri núna og hvað kosta ódýrustu eignirnar?

Tryggvi „Ég myndi segja að núllpunkturinn sé kominn upp í 30 milljónir. Það er mjög sjaldgæft að sjá eignir undir 30 milljónir. Litlar íbúðir í Tjarnarlundi eru t.d. farnar að fara á 32-34 milljónir. Meðalfermetraverð á eldri eignum er á bilinu 5-600 þúsund en á nýjum eignum er fermetraverðið 7-800 þúsund.“

Óvenjumikið af einbýlishúsum er nú til sölu á Akureyri. Hér má sjá dæmi um hús sem skráð eru á fasteignavefinn.

  • Hvað vantar helst á markaðinn núna?

Friðrik „Íbúðir fyrir fyrstu kaupendur. Það er vissulega verið að byggja nýjar íbúðir en þær eru flestar ef ekki allar með bílakjallara, eitthvað sem ungt fólk sem er að koma sér inn á markaðinn er ekki tilbúið til að greiða aukalega fyrir. En þetta virðist líka vera stefna bæjaryfirvalda að fjölbýlishús séu öll byggð með bílakjallara í dag.“

Sigurður „Í þessu árferði þegar meira er að koma inn á sölu en fer út þá vantar ekki beint neitt því akkúrat núna er hægt að finna allar gerðir af húsnæði til sölu hér á Akureyri. Úrvalið er bæði gott og fjölbreytt í augnablikinu. Það vantar kannski helst húsnæði sem fellur undir hlutdeildarlán, það hafa ekki verið margar slíkar íbúðir í boði hér á Akureyri.“

  • Nýjar miðbæjaríbúðir við Hofsbót og Austurbrún hafa vakið athygli, eru þetta íbúðir sem Akureyringar munu kaupa eða verða þetta orlofsíbúðir fyrir höfuðborgarbúa?

Tryggvi „Þær íbúðir sem byggðar voru við Austurbrún fyrir 3-4 árum eru 60% í eigu Akureyringa og maður hefur ekki heyrt annað en að fólk sé ánægt þar. En við höfum auðvitað markaðssett Akureyri sem gott bæjarfélag svo auðvitað er ákjósanlegt fyrir höfuðborgarbúa að eiga hér orlofseign. Þannig að ég á von á því að kaupenda hópurinn fyrir þessar íbúðir verði blandaður.“

Friðrik  „Ég tel að íbúðirnar í Hofsbót seljist frekar sem orlofsíbúðir heldur en íbúðirnar í Austurbrú/Hafnarstræti, þær eiga frekar eftir að fara til Akureyringa. Fjórar af tíu íbúðum í Hofsbót 2 eru nú þegar seldar enda eru þetta flottar íbúðir á góðu verði og frábær kostur fyrir þá sem kjósa bíllausan lífsstíl. Þá er gott að hafa banka á neðstu hæðinni sem tryggir frið og ró en margar miðbæjar íbúðir eru með veitingastaði á neðstu hæðinni með tilheyrandi lykt og umgangi.“

Tryggvi „Það verður spennandi að sjá íbúðirnar við Austurbrú/Hafnarstræti en verktakinn hefur enn ekki gefið neitt uppi hvenær þær fara í sölu. Mér finnst almennt séð verktakar ekkert vera að flýta sér að setja það sem er í byggingu í sölu, það er af sem áður var að heilu fjölbýlishúsin voru seld áður en þau voru byggð.“

  • Hver er skemmtilegasta eignin sem er til sölu á Akureyri núna að þínum mati?

Sigurður „Ég held ég verði að segja Gránufélagshúsin við Strandgötu. Þetta er gríðarlega falleg eign á einstökum stað. Ég er í raun alveg hissa að enginn hafi enn stokkið á þetta tækifæri því þetta hús býður upp á mikla möguleiga og það væri hægt að hafa ýmsa starfsemi í þessu húsi.”

Tryggvi „Ég persónulega er alltaf hrifinn af nýjum, fallegum íbúðum í fjölbýli. Mér finnst t.d. Hofsbótin mjög skemmtilegt verkefni.”

Friðrik „Ég hefði verið til í að búa í íbúð 401 í Hofsbót 2, mjög skemmtileg eign með stórum svölum, en hún er bara seld. Annars er ég mjög spenntur fyrir íbúðunum í Austurbrú sem og íbúðunum við Skarðshlíð 20 sem Húsheild/Hyrna er að fara að byggja.”