Fara í efni
Fréttir

Gera verður kröfu um að fólk hafi heimilislækni

Björn Valur Gíslason, sjómaður á Akureyri og fyrrverandi þingmaður VG, segir það „hvorki óvart né féll það óvænt af himni ofan“ að ríflega annar hver íbúi bæjarins sé án heimilislæknis. Grein eftir hann birtist á Akureyri.net í gær.

Hann segir að fyrst stjórnvöld hafi ákveðið að fara jafn illa með opinberu heilsugæsluna og raun ber vitni verði „að gera þá réttlátu kröfu að þau sömu stjórnvöld standi ekki í vegi fyrir því að bæjarbúar í þessu tilfelli, geti þegið þjónustu heimilislæknis eftir öðrum leiðum í sinni heimabyggð og jafnframt að þau geri það sem gera þarf til að svo geti orðið. Það verður sömuleiðis að gera þá kröfu til bæjarstjórnar og bæjarfulltrúa allra flokka á Akureyri að þeir standi sig í stykkinu sem talsmenn bæjarbúa og verji hagsmuni þeirra með öllum ráðum. Verði ekki tekið til varna af myndarskap, gæti auðveldlega svo farið að í náinni framtíð heyri heimilislækningar sögunni til á Akureyri í þeirri mynd sem verið hefur.“

Björn Valur var lengst af „í hópi hinna heppnu Akureyringa sem naut þjónustu afbragðs heimilislæknis þar til um síðustu áramót er lækninum mínum var sagt upp störfum. Ég kaus að fylgja honum milli starfsstöðva, úr opinbera kerfinu í það einkarekna í stað þess að missa af þjónustu hans og verða þannig án heimilislæknis. En nú sýnist mér hinsvegar að ég og fleiri, sé kominn í hóp meirihluta íbúa bæjarins, án heimilislæknis.“

Þarna vísar hann í þá kröfu Sjúkratrygginga Íslands, og svör heilbrigðisráðherra, að tveir heimilislæknar sem starfað hafa á Akureyri á vegum heilsugæslunnar í Urðarhvarfi í Kópavogi hafi eingöngu aðsetur á síðarnefnda staðnum. Starfsemin á Akureyri hefur því verið stöðvuð tímabundið.

Smellið hér til að lesa grein Björns Vals