Fara í efni
Fréttir

Ætla að leita markvisst eftir sjónarmiðum íbúa

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Drög að stefnu Akureyrarbæjar um íbúasamráð 2024-2026 verða lögð fyrir bæjarstjórnarfund á morgun, en bæjarráð samþykkti drögin í liðinni viku og vísaði málinu til bæjarstjórnar til umræðu og afgreiðslu.

Drög að stefnu Akureyrarbæjar um íbúasamráð til ársins 2026 voru lögð fyrir bæjarráð í maí 2022 og bæjarstjórn í september sama ár. Bæjarbúar voru hvattir til að senda inn ábendingar og hugmyndir, enda um stefnu um íbúasamráð að ræða. Í framhaldinu var unnin tímasett aðgerðaáætlun ásamt fjármögnun verkefna. Í vinnsluferlinu hefur stefnan verið kynnt í öldungaráði, ungmennaráði, skipulagsráði, velferðarráði og fræðslu- og lýðheilsuráði, ásamt samráðshópi um málefni fatlaðs fólks.

Leita eftir þátttöku og sjónarmiðum íbúa

Framtíðarsýnin í stefnunni er meðal annars sú að íbúasamráð sé sjálfsagður og mikilvægur þáttur í verklagi Akureyrarbæjar við ákvarðanatöku, stefnumótun og þróun þjónustu. „Akureyrarbær leitar markvisst og endurtekið eftir þátttöku og sjónarmiðum íbúa,“ segir þar meðal annars, ásamt því að fjölbreyttum leiðum sé beitt til að ná til mismunandi hópa samfélagsins, ekki síst þeirra sem sjaldan hafa frumkvæði að því að taka þátt.

Grímsey. Mynd: Friðþjófur Helgason.

Tilgangur samráðsstefnunnar er þríþættur:

  • Gagnvart íbúum er tilgangurinn að auka möguleika til áhrifa, bæta tengsl við samfélagið og sveitarfélagið, um leið og röddum ólíkra hópa er gefið aukið vægi.
  • Gagnvart kjörnum fulltrúum er tilgangurinn að bæta starfsumhverfi og ákvarðanatöku með upplýstri umræðu, auknum stuðningi, þekkingu og ríkari tengslum við íbúa.
  • Gagnvart stjórnkerfinu er tilgangurinn að festa í sessi íbúasamráð, efla traust íbúa á stjórnsýslunni, draga úr líkum á mistökum og gera þjónustuna betri og skilvirkari.

Stefnan skiptist í ferns konar áherslur og meginmarkmið og 13 aðgerðir. Áherslur og meginmarkmið eru markvisst íbúasamráð, fjölbreyttar aðferðir, gagnsæi og miðlun, og endurgjöf. Þessi atriði eru svo útfærð með áhersluatriðum. Settar eru fram 13 aðgerðir með tímasetningu og ábyrgðaraðila innan stjórnkerfisins. Þar má nefna samráð um stefnur, verklag við íbúasamráð, framkvæmd umhverfismála, samráð um uppbyggingarsvæði, sérstakt vefsvæði, lifandi miðlun og fleira.

Hverfisnefndir lagðar niður

Í fjórða lið stefnunnar segir að hverfisnefndir verði lagðar niður og er miðað við að það gerist strax í vor enda hafi þær verið að mestu óvirkar undanfarin ár. Í stað þeirra verði öðrum aðferðum beitt sem henta samráðsefninu hverju sinni.

Hverfisnefndirnar hafa verið starfandi frá 2002, „en skiptar skoðanir eru um hversu vel þær virka sem samráðsvettvangur við íbúa og hvort þær auki raunverulega áhrif íbúa í einstökum hverfum.“ Lagt er til að fyrirkomulagið verði endurskoðað og kannað hvort aðrar leiðir henti betur, eins og hverfisfundir með íbúum og jafnframt megi gera ráð fyrir að nýjar leiðir eins og samráð í gegnum vefinn Okkar Akureyri geti komið í stað hverfisnefndanna.

Hrísey. Mynd af vef Akureyrarbæjar.

Árlegir hverfafundir og eyjaráðin efld

Aftur á móti verða haldnir hverfafundir árlega að vori þar sem íbúum gefst kostur á að ræða við kjörna fulltrúa og starfsfólk bæjarins, koma á framfæri hugmyndum og tillögum, og ræða málefni sem snúa að nærumhverfinu. Fyrstu fundirnir eru áformaðir í vor og reynsla af þeim notuð til að meta fyrirkomulagið til framtíðar.

Niðurlagning hverfisnefnda á aðeins við um nefndirnar innan Akureyrar og verða engar breytingar gerðar á hverfisráðum Grímseyjar og Hríseyjar nema til eflingar þeirra. Megintilgangur þeirra er að vera ráðgefandi og gera tillögur um málefni eyjanna. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að auka enn frekar tengsl hverfisráðanna við stjórnkerfið og tryggja að mál á þeirra vegum fari í réttan farveg. Skref hafa verið stigin í þá átt. Til að mynda hefur verið ráðinn starfsmaður á þjónustu- og skipulagssviði í Hrísey sem hefur það sem eitt af meginverkefnum að halda utan um fundi hverfisráðs og fylgja málum eftir ásamt því að tengiliður hefur verið útnefndur innan stjórnkerfisins sem hefur sambærilegt hlutverk við hverfisráðið í Grímsey. Bæjarráð hefur samþykkt að bæjarfulltrúar skiptist á að sitja sem áheyrnarfulltrúar á fundum hverfisráðanna.

Leiti fyrr og oftar til samráðshópa

Fram kemur í viðauka stefnunnar að í samtölum við núverandi samráðshópa - hverfisnefndir Grímseyjar og Hríseyjar, ungmennaráð, öldungaráð og samráðshóp um málefni fatlaðs fólks - hafi komið fram vilji þeirra til að koma fyrr að málum og fá til sín fleiri mál en verið hefur. „Mikilvægt er að samráð við þessa hópa fari fram þegar væntanleg samráðsefni eru í undirbúningi en ekki á lokastigum máls,“ segir þar meðal annars.

Drögin í heild má finna í fundagátt Akureyrarbæjar - sjá hér.