Rachael og Sigrún fá rannsóknarstyrk Fulbright
Þær Rachael Lorna Johnstone, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans á Akureyri og Sigrún Sigurðardóttir, prófessor við hjúkrunarfræðideild skólans hafa verið valdar til þáttöku í Fulbright Arctic Initiative IV (FAI). Í fréttatilkynningu segir að þær hafi verið valdar sameiginlega af stjórn Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi og stjórn Fulbright í Bandaríkjunum, en FAI er flaggskip Fulbright á sviði Norðurskautsrannsókna.
Loftslagbreytingar og réttlát orkuskipti
Rachael fékk styrk ásamt Önnu Karlsdóttur, lektor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, en þær munu vera saman í vinnuhóp um loftslagsbreytingar og auðlindir á Norðurslóðum (Climate Change and Arctic Resources). „Þetta er mikill heiður og ég er mjög spennt fyrir því að hefja störf í vinnuhópnum,“ segir Rachael við blaðamann Akureyri.net. „Ég ætla að taka mér árs rannsóknarleyfi til þess að sinna þessu.“
„Vinnan fer að mestu leyti fram hérna heima, en við mætum þrisvar á fund í persónu, fyrst í Noregi í september,“ segir Rachael. „Annars verður fundað mánaðarlega eða oftar á netinu. Síðan verð ég í þrjá mánuði frá febrúar til apríl 2025 í Bandaríkjunum. Í Wilson stofnuninni í Washington DC, Polar institute, sem er rannsóknarsetur heimskautanna.“
Frumbyggjar á Norðurslóðum eru í viðkvæmri stöðu, sem dæmi má nefna stór landsvæði á heimkynnum Sama í Noregi sem eru ætluð undir vindorkugarða
Umsókn Rachael fjallar um réttlát orkuskipti á Norðurslóðum, eða Just energy transition for the Arctic. „Í þessu felst að vanda til verka þegar kemur að orkuskiptum til þess að bregðast við loftslagsbreytingum,“ segir Rachael. „Frumbyggjar á Norðurslóðum eru í viðkvæmri stöðu, sem dæmi má nefna stór landsvæði á heimkynnum Sama í Noregi sem eru ætluð undir vindorkugarða. Svona ákvarðanir þurfa að vera vandaðar og í samvinnu við heimafólk.“
Áhrif áfalla á geðheilbrigði frumbyggja
Mikill heiður fyrir HA
Þetta er fjórða lota Fulbright Arctic Initiative, en markmið áætlunarinnar er að styrkja alþjóðlegt vísindasamstarf á sviði Norðurskautsfræða. Um er að ræða 18 mánaða verkefni sem hefst haustið 2024 með þátttöku 19 fræði- og vísindamanna frá sjö ríkjum Norðurskautsráðsins. Í fyrstu tveimur lotum FAI tilnefndi Ísland einn styrkþega, tvo í þriðju lotu, en fær í fjórðu lotu úthlutað þremur sætum. Það er ekki síst vegna fjárframlags sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið veitir sérstaklega til Fulbright stofnunarinnar vegna verkefnisins.
Það er rós í hnappagatið hjá Háskólanum á Akureyri að eiga tvo fulltrúa úr fræðasamfélagi skólans í hópi styrkþega.