Fara í efni
Umræðan

Tap fyrir Val – KA/Þór í umspil gegn Haukum

Lovísa Thompson fór illa með KA/Þór í dag; fór hreinlega hamförum í leiknum og gerði 17 mörk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar KA/Þórs komast ekki beint í undanúrslit Íslandsmótsins í handbolta að þessu sinni. Stelpurnar okkar töpuðu fyrir Val í Reykjavík í dag, 29:23, og enda í þriðja sæti deildarinnar. Framundan eru leikir við Hauka um sæti í fjögurra liða úrslitunum.

Með sigrinum í dag skutust Valsmenn í 2. sætið, upp fyrir KA/Þór, en Framarar höfðu þegar tryggt sér sigur í deildinni. Fram og Valur fara því beint í undanúrslit.

  • Matea Lonac markvörður KA/Þórs lék ekki með í dag og hefur ekki verið með undanfarið vegna höfuðhöggs sem hún fékk í leik. Vonast er til þess að hún geti verið með það sem eftir er vetrar, en það er ekki öruggt.
  • Rut Jónsdóttir, algjör lykilmaður í liði KA/Þórs, lék aðeins fyrstu 11 mínútur leiksins í dag; fékk rautt spjald vegna brots og kom ekki meira við sögu. KA/Þór má ekki við slíku áfalli.

Þessar rimmur eru framundan um seinni tvö sætin í undanúrslitunum:

  • KA/Þór (3) - Haukar (6)
  • ÍBV (4) - Stjarnan (5)
  • Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram. Leikið er fimmtudag 28. apríl á Akureyri og í Eyjum, laugardag 30. apríl í Hafnarfirði og Garðabæ, og síðan þriðjudag 3. maí - ef oddaleik þarf til að fá fram úrslit - á Akureyri og í Eyjum.

Valsarar höfðu frumkvæðið strax frá upphafi í dag; komust í 3:0 og staðan var 6:3 þegar KA/Þór varð fyrir því áfalli að Rut Jónsdóttir fékk rautt spjald og var þar með útilokuð frá frekari þátttöku í leiknum, sem fyrr segir. Rut braut á Auði Ester í hraðaupphlaupi með þessum afleiðingum.

Ef á brattann var að sækja fram að þessu varð brekkan enn erfiðari viðfangs þegar krafta Rutar naut ekki við. KA/Þór náði að vísu að rétta sinn hlut tímabundið, jafnt var 7:7 og 8:8, en svo sigldu Valsmenn fram úr og staðan var 15:11 í hálfleik.

Valur gerði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og ljóst var hvert stefndi. Stelpurnar okkar átti enga möguleiki á að halda við Valsara; munurinn varð mestur sjö mörk en sex þegar flautað var til leiksloka. 

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 8 (6 víti), Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Huld Bryndís Tryggvadóttir 1 og Anna Marý Jónsdóttir 1.

Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 12 (1 víti) – 29,3%

Valsarinn Lovísa Thompson var stórkostleg í dag og bar höfuð og herðar yfir alla aðra leikmenn; gerði hvorki fleiri né færri en 17 mörk í 21 skottilraunum!

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum

  • KA/Þór mætti Haukum tvisvar í deildinni í vetur eins og öðrum liðum; Haukar unnu fyrri leikinn örugglega í Hafnarfirði í desember, 34:27, en KA/Þór hefndi fyrir það með  álíka öruggum sigri í KA-heimilinu í mars, 34:26.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45