Fara í efni
Umræðan

Samfellt á sjónum í rúma fjóra mánuði!

Björn Valur Gíslason í skipstjórastól franska frystitogarans Emeraude.

Björn Valur Gíslason, skipstjóri á franska frystitogaranum Emeraude, kom heim til Akureyrar í faðm fjölskyldunnar rétt fyrir jól, eftir 125 daga samfellt á sjó. Þessi óvenjulega langa útivera á sér sínar skýringar og hafði kórónuveirufaraldurinn að sjálfsögðu mikil áhrif.

Túrarnir urðu í raun tveir og báðir óvenjulega langir án þess að áhöfnin færi í land á milli. Björn Valur segir, í bráðskemmtilegu og ítarlega viðtali á heimasíðu Samherja, að allt hafi gengið að óskum og mikil eining ríkt um þetta fyrirkomulag meðal áhafnarinnar. Hann hrósar áhöfninni og skipinu í hástert og ekki síður skipulaginu hjá útgerðinni, sem hafi fjölskyldugildi skipverja í hávegum.

Björn Valur hefur verið í fjöldamörg ár á sjó; byrjaði þar 1975 og hafði lengi verið stýrimaður og skipstjóri þegar hann var kjörinn á Alþingi. Hann var þingmaður VG eitt kjörtímabil, frá 2009 til 2013, en sneri fljótlega að því loknu aftur á sjóinn.

Í áhöfn Emeraude eru á bilinu 36 til 38 manns af ýmsu þjóðerni. Stærsti hópurinn er Frakkar, þá Portúgalar og Pólverjar. Björn Valur hefur oftast verið eini Íslendingurinn um borð en síðasta ár hefur Arnar Þór Gunnarsson verið Baader-maður á skipinu og nýverið var Vilhelm Guðjónsson ráðinn vinnslustjóri.

Veiðiferðin langa hófst um miðjan ágúst þegar Emeraude hélt frá Þýskalandi til karfaveiða á alþjóðlegu veiðisvæði á milli Noregs og Íslands. Síðan var haldið til þorskveiða við Svalbarða. „Veiðin var dræm á köflum en við náðum að fylla skipið og héldum til hafnar í Hollandi um miðjan október, eftir um 60 daga á sjó. Þar var ætlunin að landa aflanum, taka vistir og hafa áhafnarskipti,“ segir hann.

Menn voru sem sagt á leiðinni heim til ástvina sinna eftir tveggja mánaða fjarveru en kórónuveirufaraldurinn kollvarpaði þeim góðu áformum. „Þegar við áttum tvo daga eftir í höfn í Hollandi, þann 16. október, var ljóst að staðan var orðin býsna alvarleg í nær öllum löndum Evrópu, ekki síst í Hollandi og Frakklandi. Ljóst var að ef áhöfnin færi í land gæti það reynst erfitt að koma hverjum til síns heima og ekki síður yrði það bæði erfitt og áhættusamt að fá menn aftur um borð vegna mikillar smithættu í flestum löndum Evrópu. Við stóðum ennfremur frammi fyrir því að ef við færum í land og stoppuðum skipið um tíma til að hvíla áhöfnina, væri algerlega óvíst hvenær við kæmumst aftur á sjóinn og sömuleiðis hvort við myndum þá hugsanlega lenda í basli við að klára aflaheimildir okkar í tíma til að komast aftur heim fyrir jól og þyrftum þá jafnvel að eyða bæði jólum og áramótum við veiðar. Það var lítil stemning fyrir því hjá áhöfninni,“ segir Björn Valur.

Hann segist hafa kallað áhöfnina saman í borðsal skipsins og kynnt þeim stöðu mála. Tveir kostir hafi verið í boði og niðurstaðan sú að fara strax út aftur að aflokinni löndun, með sömu áhöfn. „Þetta þurfti allt að ræða frá öllum hliðum og fá menn til að sættast á að af tveimur ekki svo góðum kostum væri þetta þó sá skárri.“ Að lokum náðist niðurstaða sem allir voru sáttir við, þótt vissulega hafi hún verið ákveðið áfall fyrir suma og erfið fyrir marga. „Við lönduðum aflanum 18. og 19. október, tókum vistir og héldum af stað til veiða að nýju 19. október. Það var eina færa leiðin.“

Björn Valur segir svo langa samfellda útiveru – eins konar sjálfskipaða 125 daga sóttkví – vissulega ákveðna þolraun og prófraun í mannlegum samskiptum. „Auðvitað koma upp vandamál – bæði um borð og líka hjá vinum og vandamönnum í landi. Ég hef alla mína skipstjóratíð lagt áherslu á það við áhöfnina að trúnaðarsamtal við skipstjórann sé alltaf í boði. Það er hluti af starfinu mínu að ræða og leysa þau vandamál sem upp kunna að koma, stappa stálinu í mannskapinn og reyna að halda móralnum góðum. Mér þykir mjög vænt um þann þátt starfsins. Svo er gítar um borð og menn grípa stundum í hann sér til dægrastyttingar,“ segir hann en Björn Valur hefur afrekað ýmislegt á tónlistarsviðinu, m.a. með gömlu áhöfninni sinni á Kleifarberginu.

Nánar á heimasíðu Samherja

Björn Valur kominn heim, rétt fyrir jól! Með honum er eiginkonan, Þuríður Lilja Rósenbergsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, og elsta barnabarnið, Björgvin Máni.

 

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45