Fara í efni
Umræðan

Rauði þráðurinn að yfirbragðið sé manneskjulegt

Mynd: Envalys

Niðurstaða netkönnunar um skipulagsmál á Oddeyri í byrjun júní, á vegum fyrirtækisins Envalys, er í samræmi við niðurstöður íbúakosningar sem Akureyrarbær gekkst fyrir í vor, segir Páll Jakob Líndal, umhverfissálfræðingur og eigandi Envalys, við Akureyri.net. Rauði þráðurinn sé, eins og í öðrum könnunum, að fólk vilji að umhverfi þess hafi manneskjulegt yfirbragð.

Páll Jakob leggur áherslu á, og hefur alltaf gert, að Akureyrarbær bað ekki um könnunina heldur sé hún að frumkvæði fyrirtækis hans. Niðurstöðurnar hafi hins vegar verið sendar skipulagsyfirvöldum bæjarins, en hann hafi enn ekki fengið nein viðbrögð, nema frá formanni stýrihóps um ráðgefandi íbúakosninguna í vor, og kveðst undrast það.

Marktæk niðurstaða

Í könnun Envalys voru möguleikarnir þrír úr íbúakönnuninni sýndir í gagnvirkri þrívídd og frá öðrum sjónarhornum en áður.

Svör bárust frá 231, sem sumum kann að finnast lítið en Páll Jakob segir svo alls ekki vera. „Þetta er algjörlega marktæk niðurstaða. Sálfræðirannsóknir eru oft unnar með svipuðum fjölda fólks og ég hef fengið birtar rannsóknir í vísindatímaritum, þar sem álíka fjöldi tekur þátt,“ segir hann.

„Það er viðurkennt að allar rannsóknir hafa einhverja veikleika, einhver málamiðlun er gerð; maður fórnar einu en fær eitthvað annað í staðinn. Í þessu tilviki reynum við að safna gögnum um tiltekið mál, mönnum var heimilt að dreifa könnuninni þannig að snjóboltaúrtak verður til, hún vindur upp á sig, maður hefur ekki stjórn á því hvert hún fer en áhugasamir taka þátt. Þetta er viðurkennd aðferð, önnur er að vera með tilviljunarúrtak eins og til dæmis Gallup velur að gera.“

Þess má geta að Envalys er fyrirtæki sem sprottið er upp úr háskólaumhverfinu og nýtur núna styrks frá Tækniþróunarsjóði.

Afgerandi niðurstaða

Niðurstaða könnunarinnar var afgerandi, segir Páll Jakob. Yfirgnæfandi meirihluti vill lægstu byggðina sem hægt var að velja; 3-4 hæðir sem gildandi skipulag gerir ráð fyrir. Skjal með niðurstöðunum er neðst í fréttinni.

„Þetta er í samræmi við niðurstöður íbúakosningarinnar; valkostur 1, lægsta byggðin, er það sem fólk kýs,“ segir Páll Jakob við Akureyri.net. „Fólk kýs almennt lægri byggð og fyrir því eru ástæður: eftir því sem byggðin er lægri líkar fólki hún betur og tengir betur við hana, þykir hún manneskjulegri. Það kemur mér því ekki á óvart að sá kostur sem kemur verst út eru hæstu húsin, en strangt til tekið er ekki marktækur munur á milli valkosta 2 og 3; miðað við niðurstöðuna getum við ekki sagt hvor kosturinn fólki þykir betri eða verri. Tilhneigingin er þó sú að fleirum líki við valkost 2 [5 til 6 hæðir] en 3 [6 til 8 hæðir], en hafi sú tillaga átt að vera málamiðlun er henni í raun alveg hafnað.“

Fólk vill þétta byggð

Páll Jakob segir áhugavert að fólk vilji að byggð á Oddeyri sé þétt. „Í þessari könnun fáum við 4,66 af 6 mögulegum í afstöðu til þéttingar þegar spurt er, almennt séð, Hversu andsvígur/hlynntur ertu þéttingu byggðar á Oddeyri á skalanum 0 til 6? Það er því ekki spurning um hvort fólk villji þétta byggð heldur skipti máli hvernig það sé gert. Það sé hægt án þess að reisa turn, sem er mjög mikilvægur þáttur í niðurstöðunni.“

Í lok könnunarinnar gat fólk tjáð sig frekar um skipulagsmálin með því að skrifa hugmyndir frá eigin brjósti. „Rauði þráðurinn er að fólk vill halda manneskjulegu yfirbragði og hafa uppbygginguna þannig að umhverfið sé aðlaðandi, fólk biður um það á Oddeyri og reyndar alls staðar annars staðar líka. Það vill ekki magna upp vind og ekki að sólin sé tekin burt; fólk vill lágreista byggð og fjölbreyttan gróður.“

Páll nefnir að ástand húsa sé fólki ekki efst í huga í könnunum sem þessum, frekar virðist skipta máli að þau eigi sér sögu. „Að segja að hús séu meira og minna ónýt og þar af leiðandi ljót gengur ekki upp, það þarf að taka dýpri og rökréttari umræðu um málið.“ Hann tekur Bernhöftstorfuna í Reykjavík sem gott dæmi, hana vildu margir rífa á sínum tíma því húsin voru illa farin, en húsaröðin milli Bankastrætis  og Amtmannsstígs í miðbæ Reykjavíkur eru nú mikil borgarprýði.

Almennt ekki í umræðunni

Páll segir áhugavert að konur beri meiri umhyggju fyrir umhverfinu en karlar, þær virðist viðkvæmari fyrir því að „umhverfinu sé öllu rótað upp, að búin séu til stór, massíf hús; það sést í þessari könnun að afstaða kvenna að meðaltali er til dæmis 0,84 af 6 til valkostar 2. Sú niðurstaða segir mér að konum finnist hugmyndirnar sem kynntar voru alveg glataðar! Þessi skoðun kemur fram aftur og aftur þar sem við gerum könnun og þarna er kominn kynjafaktor sem hægt er að taka áfram. Spyrja má: hverjir eru að taka ákvarðanir? Er nægilega horft til þessa? Lítil könnun eins og þessi veitir miklar upplýsingar, hún snýst um það að varpa ljósi á hluti sem eru almennt ekki í umræðunni.“

Alltaf sömu niðurstöður

Páll hefur með kerfisbundnum hætti kannað hug nemenda sinna í umhverfissálfræði við Háskóla Íslands til ólíkra götumynda í þéttbýli í mörg ár og niðurstaðan hefur ætíð verið sú sama.; sambærileg við könnunina sem hér ræðir um. „Nýtt fólk kemur inn í kúrsinn þannig að hóparnir eru algjörlega óháðir. Við keyrum líka reglulega skoðanakönnun, fengum í vor 300 manns til að svara verkefni þar sem meta átti 70 götumyndir víðs vegar á landinu og svörin voru nákvæmlega eins hjá þeim hópi og hjá nemendum.

Fólk hefur mismunandi smekk en hann er ekki jafn misjafn og oft er talað um. Með því að safna þessum upplýsingum erum við að koma með forsendur sem hjálpa skipulagsyfirvöldum að vinna sína vinnu. Enginn er að segja að þetta eigi að yfirtaka umræðuna en það á að vera hluti af henni. Mér finnst sérstakt að undirtektir skipulagsyfirvalda, ekki bara á Akureyri heldur alls staðar, eru vægast sagt litlar! Þetta virðist mjög óþægilegt í umræðunni en erum við ekki að reyna að búa til gott skipulag fyrir samfélagið? Er ekki tilgangurinn að gera umhverfi þar sem fólki líður vel? Eða á að sleppa því að hugsa um fólkið?“ 

Páll segist ítreka það sem hann sagði í viðtali við Akureyri.net þegar greint var fá könnuninni á sínum tíma, og segi raunar alltaf: „Að mínu mati á skipulag að snúast um samfélagið, alls ekki um egóisma, sérhagsmuni eða skammtímahagsmuni. Ekki um einstaka persónur og leikendur heldur um samfélagið og að hugsað sé til langs tíma.“

HÉR má sjá niðurstöður könnunarinnar og ýmsar upplýsingar.

Smelltu hér til að lesa um niðurstöðu íbúakönnunar Akureyrarbæjar.

Smelltu hér til að lesa frétt Akureyri.net um könnunina Envalys á sínum tíma.

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Ásdís Rán skrifar
19. apríl 2024 | kl. 14:00

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00