Fara í efni
Umræðan

Minningarsýning um Fiske í Grímsey

Unnið hefur verið að því í sumar að setja upp minningarsýningu í flugstöðinni í Grímsey um bandaríska fræðimanninn Daniel Williard Fiske, velgjörðarmann Grímseyinga. Hann sigldi til Íslands árið 1879, sá þá Grímsey við ystu sjónarrönd og tók sérlegu ástfóstri við eyjuna. Þetta kemur fram á vef Akureyrar.

„Jafnvel þótt Fiske hafi aldrei heimsótt Grímsey þá hreifst hann af lífsbaráttu íbúanna og ekki síst er hann heyrði af því hve góðir þeir væru í taflmennsku enda var hann sjálfur mikill áhugamaður um skák,“ segir á vef bæjarins.

Fiske sendi í framhaldi Íslandsheimsóknarinnar hverju heimili í Grímsey taflmenn og taflborð. Nokkru síðar sendi hann bókagjöf til Grímseyjar og varð þannig til lítið almenningsbókasafn sem kallað var Eyjarbókasafnið. Þar að auki lét Fiske sérsmíða og flytja út í eyju tvo skápa með áletrunum utan um bókasafnið. Skáparnir eru varðveittir í Grímsey og geyma rúmlega tvö hundruð bækur sem unnið er að því að skrásetja. Nokkrar bókanna eru á sýningunni ásamt öðrum munum, myndum og textum sem varpa ljósi á sögu Fiske og áhugaverð tengsl hans við Grímsey.

Í vor var biðlað til fólks um aðstoð við leit að ýmsum munum, svo sem taflmönnum og taflborðum sem Fiske sendi Grímseyingum á sínum tíma. Nokkrir taflmenn hafa komið í leitirnar en svo virðist sem aðeins eitt taflborð hafi varðveist og er það til sýnis á minningarsýningunni.

Sigríður Örvarsdóttir safnafræðingur og hönnuður hefur stýrt verkefninu fyrir hönd Akureyrarstofu. „Uppsetningu sýningarinnar er að mestu lokið og eru gestir og gangandi hvattir til að líta inn í flugstöðina og skoða. Grímseyingar halda minningu velgjörðarmannsins Williard Fiske á lofti og er ætíð haldið upp á fæðingardag hans, 11. nóvember, og því hefur verið ákveðið að opna minningarsýninguna formlega þann dag,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Hluti þeirra gripa sem eru á sýningunni í Grímsey.

AÐ OFAN - Sigríður Örvarsdóttir, safnafræðingur og hönnuður, sem hefur stýrt verkefninu fyrir hönd Akureyrarstofu.

Áhugalausir þingmenn

Björn Valur Gíslason skrifar
25. mars 2024 | kl. 12:30

Akureyri – næsta borg Íslands

Ingibjörg Isaksen skrifar
20. mars 2024 | kl. 14:00

Fimm ástæður til að fagna

Guðmundur Haukur Sigurðarson skrifar
19. mars 2024 | kl. 10:00

Mótmæli sjálfstæðismanna

Björn Valur Gíslason skrifar
15. mars 2024 | kl. 10:15

Frábærar viðtökur bæjarstjóra!

Hjörleifur Hallgríms skrifar
15. mars 2024 | kl. 09:30

Tjaldsvæðið – Villigötur

Jón Hjaltason skrifar
14. mars 2024 | kl. 10:45