María Gros verðlaunuð hjá Linköping FC
María Ólafsdóttir Gros, fyrrum leikmaður með knattspyrnuliði Þórs/KA, var valin besti nýliðinn í sænska úrvalsdeildarliðinu Linköping FC og verðlaunuð með 10.000 sænskum krónum fyrir síðasta heimaleik liðsins í Damallsvenskan í gær. María er markahæst í liðinu, hefur skorað sjö mörk í 25 deildarleikjum, en liðið á einum leik ólokið.
Í frétt sænska félagsins er Maríu lýst sem óslípuðum demanti. Hún hafi verið á stöðugri uppleið síðan hún kom til Linköping sumarið 2024 og verðlaunin sem hún hlýtur nú séu engin tilviljun heldur séu þau ávöxtur erfiðis og mikils sigurvilja, óbilandi drifkrafts og hæfileika. Henni er líkt við Eyjafjallajökul og sagt að ekki skipti máli á hvorum kantinum hún spili, því sem sprækur og hugmyndaríkur kantmaður sé hún jafn óútreiknanleg og Eyjafjallajökull er fyrir flugumferð yfir Íslandi og öðrum Norðurlöndum.
María var á dögunum valin í A-landsliðshóp Íslands í fyrsta skipti og er það nefnt í frétt félagsins. Hún er sögð eiga sér bjarta framtíð sem hæfileikaríkur leikmaður sem muni skila árangri, bæði með félagsliði og landsliði, hvorn treyjulitinn sem hún velur, eins og það er orðað. Þarna er vísað til þess að María á íslenskan föður og sænska móður og væri því lögleg með landsliðum beggja landanna ef kallið kæmi.
María kórónaði svo gærkvöldið með frábærum leik, skoraði mark og lagði upp annað í 2-2 jafntefli gegn Kristianstad IF. Því miður fyrir Maríu og félagið hennar var Linköping hins vegar þegar fallið úr sænsku úrvalsdeildinni fyrir leikinn í gærkvöld. Liðið endar í 13. sæti af 14, er núna með 16 stig úr 25 leikjum og mætir Rosengård á útivelli í lokaumferðinni sunnudaginn 16. nóvember. Rosengård er sæti ofar með 22 stig og gæti með sigri komið sér úr umspilssætinu upp í 11. sætið á kostnað Brommapojkarna.
Fjallað var um Maríu og rætt við hana um veruna í Skotlandi, Hollandi og Svíþjóð á vef Þórs/KA í lok október - sjá hér.
Græni dagurinn
„Sofðu rótt í alla nótt“– Um stöðu íslenskunnar, lestrarmenningu og ákall til okkar sjálfra
Afsakið – Kemst ekki á fundinn
Varaflugvallagjaldið og flugöryggi