Fagmannlega gert þegar Þórsarar unnu HK

Þórsarar fóru burt með öll stigin þrjú úr Kórnum í Kópavogi í gærkvöld þegar þeir sigruðu HK 2:1 í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Ibrahima Balde og Sigfús Fannar Gunnarsson gerðu mörk Þórs í leiknum.
Þórsliðið lyftist upp um eitt sæti við sigurinn; er nú með 23 stig í fjórða sæti. Fór upp fyrir Þrótt, sem er með 22 stig eftir 1:1 jafntefli við Leikni í gær. Njarðvík vann Fylki 1:0 og er efst með 27 stig, ÍR er með 25 stig en á inni leik við Völsung á Húsavík í dag, og HK er með 24 stig, einu meira en Þór.
Heimamenn sköpuðu nokkra hættu við Þórsmarkið snemma leiks en tókst ekki að skora. Aron Birkir Stefánsson, fyrirliði og markvörður Þórs, varð einu sinni frábærlega þegar Ívar Örn Gissurarson þrumaði á markið af stuttu færi, en ekki munaði heldur miklu að varnarjaxlinn Ragnar Óli Ragnarsson næði að skora hinum megin; hann skallaði naumlega framhjá HK-markinu eftir hornspyrnu Ýmis Geirssonar.
Ísinn var svo brotinn á 24. mínútu þegar Ibrahima Balde kom Þór í 1:0 eftir glæsilegan undirbúning miðjumannsins unga, Einars Freys Halldórssonar. Einar Freyr fékk boltann á miðlínunni og tók á rás, lék á nokkra HK-inga og komst upp að vítateig, virtist við það að missa boltann en náði valdi á honum aftur og sendi á Balde sem skoraði með hnitmiðuðu skoti frá vítateigslínunni. Afar vel gert hjá báðum.
Ívar Örn Gissurarson jafnaði fyrir HK með föstu skoti úr vítateignum á 38. mín. en á síðustu augnablikum fyrri hálfleiksins skoraði Sigfús Fannar Gunnarsson það sem reyndist sigurmarkið. Ýmir Geirsson tók hornspyrnu frá hægri og Daninn Christian „Greko“ Jakobsen, sem lék með Þór í fyrsta skipti, fleytti boltanum með höfðinu að fjærstönginni þar sem Sigfús Fannar var óvaldaður og gat ekki annað en skorað.
Frammistaða Þórsara í seinni hálfleik var mjög fagmannleg. Þeir héldu boltanum vel og stjórnuðu leiknum að mestu, HK-ingar höfðu í raun ekki roð við þeim þar til í lokin að heimamenn skiptu um gír og sóttu af krafti. Þórsarar vörðust vel, leikmenn HK náðu þó að skapa töluverða hættu en náðu ekki að nýta tækifærin.
Tveir leikmenn þreyttu frumraun sína með Þór í gær. Daninn „Greko“ var áður nefndur, hann var í byrjunarliðinu, lék á hægri kantinum og stóð sig vel; augljóslega góður leikmaður þar á ferð. Þá kom Dagbjartur Búi Davíðsson inná af miklum krafti þegar þegar um það bil hálftími var eftir. Þórsarar fengu hann lánaðan í gær frá KA og litlu munaði að hann skoraði, Ólafur Örn markvörður HK varði gott skot hans með tilþrifum.
Töluverð meiðsli hafa hrjáð Þórsara undanfarið og gera í raun enn. Af þeim sem hafa leikið reglulega upp á síðkastið voru bæði Orri Sigurjónsson og Juan Guardia Hermida fjarri góðu gamni í gær. Einar Freyr er kominn á fulla ferð á miðjunni á ný eftir meiðsli og var líklega besti maður liðsins og Clement Bayiha, sem leikið hefur sem hægri útherji í sumar, var í stöðu bakvarðar í fjarveru Hermida og „Greko“ á hægri vængnum sem fyrr segir. Aron Ingi Magnússon, einn besti maður liðsins í sumar, hefur verið tæpur vegna meiðsla og lék aðeins fyrri hálfleikinn í gær. Hermann Helgi Rúnarsson leysti hann af hólmi og gaf ekkert frekar en fyrri daginn.


Að klára verkefnin – hvað er í gangi á Ásnum ?

Ef við getum ekki lækkað fasteignaskatt, þá eigum við að hagræða

Verulegt rými til framfara

Látið hjarta Akureyrar í friði
