Fara í efni
Mannlíf

Þorbergur Ingi og Rannveig sigruðu

Þorbergur Ingi Jónsson og Rannveig Oddsdóttir sigruðu í 55 km hlaupinu í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Metþátttaka var í fjallahlaupinu sem kennt er við bæjarfjallið Súlur – 66°Norður Súlur Vertical – sem var haldið á Akureyri í dag. Á fimmta hundrað manns tóku þátt og var keppt í þremur vegalengdum, 55 km, 28 km og 18 km. Rannveig Oddsdóttir og Þorbergur Ingi Jónsson sigruðu í lengstu vegalengdinni.

Allar keppnisvegalengdir hófust í Kjarnaskógi og lauk í miðbæ Akureyrar. Fyrstu hlauparar hófu keppni kl. 7 í morgun og var síðasti hópurinn ræstur út kl. 11.

Mjög slæm veðurspá var í vikunni, einkum til fjalla, og ákvað mótsstjórn að höfðu samráði við veðurfræðinga og viðbragðsaðila að gera umtalsverðar breytingar á 55 km leiðinni til þess að tryggja öryggi keppenda. Í stað þess að hlaupa fram á Glerárdal og upp á Hlíðarfjall fóru þeir sem lengst hlupu tvo 28 km hringi, tvær ferðir upp á bæjarfjallið Súlur.

Þrír fyrstu í 55 km hlaupi karla, frá vinstri: Þorsteinn Roy Jóhannsson (2), Þorbergur Ingi Jónsson (1) og Benoit Branger (3).

Framkvæmd hlaupsins gekk í öllum meginatriðum vel og samkvæmt áætlun. Veðrið var nokkru skaplegra en verstu spár höfðu gert ráð fyrir og má segja að aðstæður hafi verið með ágætum. Vetrarlegt var um að litast efst á Súlutoppi en annars staðar á leiðunum var fínt hlaupaveður.

Í endamarkinu í miðbæ Akureyrar tók mikill fjöldi fólks á móti hlaupurum og skapaðist góð stemning meðal þátttakenda, aðstandenda þeirra og annarra gesta.

Fyrst kvenna í 55km hlaupinu var Rannveig Oddsdóttir en Þorbergur Ingi Jónsson var fyrstur karla. Andrea Kolbeinsdóttir og Halldór Hermann Jónsson sigruðu í 28 km hlaupi og í 18 km hlaupinu var það Anna Berglind Pálmadóttir sem kom fyrst kvenna í mark en í karlaflokki sigraði Logi Ingimarsson.

Efstu keppendur urðu þessir:

55 km – konur

  1. Rannveig Oddsdóttir 6:57:49
  2. Hulda Elma Eysteinsdóttir 7:36:54
  3. Kolbrún Ósk Jónsdóttir 8:49:33

28 km – konur

  1. Andrea Kolbeinsdóttir 2:45:48
  2. Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir 2:54:51
  3. Thelma Björk Einarsdóttir 3:16:02

18 km – konur

  1. Anna Berglind Pálmadóttir 1:29:28
  2. Halldóra Huld Ingvarsdóttir 1:30:32
  3. Jóhanna Skúlad. Ólafs 1:38:29

55 km – karlar

  1. Þorbergur Ingi Jónsson 5:34:14
  2. Þorsteinn Roy Jóhannsson 5:46:54
  3. Benoit Branger 6:20:12

28 km – karlar

  1. Halldór Hermann Jónsson 2:33:10
  2. Jörundur Frímann Jónasson 2:33:39
  3. Maxime Sauvageon 2:41:25

18 km – karlar

  1. Logi Ingimarsson 01:21:16
  2. Birgir Ólafur Helgason 01:26:04
  3. Ævar Freyr Valbjörnsson 01:28:37

Þrjár fyrstu í 18 km hlaupinu, frá vinstri: Halldóra Huld Ingvarsdóttir (2), Anna Berglind Pálmadóttir (1) og Jóhann Skúladóttir Ólafs (3.)

Þrjár fyrstu í 28 km hlaupinu, frá vinstri: Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir (2), Andrea Kolbeinsdóttir (1) og Thelma Björk Einarsdóttir (3).

Halldór Hermann Jónsson, sem sigraði í 28 km hlaupinu, nálgast markið í göngugötunni.

Þrír fyrstu í 18 km hlaupinu, frá vinstri: Birgir Ólafur Helgason (2), Logi Ingimarsson (1) og Ævar Freyr Valbjörnsson (3).

Þrír fyrstu í 28 km hlaupinu, frá vinstri: Jörundur Frímann Jónasson (2), Halldór Hermann Jónsson (1) og Maxime Sauvageion (3).