Fara í efni
Mannlíf

„Ólýsanlegt – ég er hálf klökkur“

Þorvaldur Lúðvík tyllti sér í flugmannssæti Airbus þotunnar í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Þetta er ólýsanlegt, ég er hálf klökkur,“ sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair, í samtali við Akureyri.net eftir að hann kom heim til Akureyrar með Airbus þotu félagsins í dag.

Ekki eru nema þrír og hálfur mánuður síðan endanlega var formlega ákveðið að taka það skref að Niceair hæfi reglulegt millilandaflug frá Akureyri. „Þetta hefur verið langt og strangt ferli en stutt síðan endanlega ákvörðun var tekin, við höfum því þurft mjög mikið að spýta í lófana. Við erum búin að hlaupa mjög hratt í fjóra mánuði!“ sagði Þorvaldur Lúðvík.

Fyrsta ferð Niceair verður frá Akureyri til Kaupmannahafnar á fimmtudaginn. Uppselt er í þá ferð og Lúðvík segir að mjög góð sala sé þegar í ferðir félagsins út þetta ár.