Fara í efni
Mannlíf

Karen skoraði í lokin og Þór/KA fékk eitt stig

Karen María Sigurgeirsdóttir og Colleen Kennedy fagna marki þeirrar síðarnefndu í síðasta heimaleik, 2:2 jafnteflinu við Breiðablik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór/KA gerði jafntefli, 1:1, við Stjörnuna í Garðabæ í kvöld í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni. Heimaliðið náði forystu á 13. mínútu þegar Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði en Karen María Sigureirsdóttir var hetja Þórs/KA þegar hún jafnaði metin með marki skömmu fyrir leikslok. Markið er skráð á 89. mínútu en þá voru reyndar sjö mínútur eftir með uppbótartíma.

Stelpurnar okkar nældu þarna í dýrmætt stig en liðið var þó töluvert frá sínu besta, að minnsta kosti þegar kom að sóknarleiknum. Enda sagði Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, í viðtali við mbl.is að liðið hefði ætlað sér að spila miklu betur. Sjá nánar hér á mbl.is.

Þór/KA er enn í sjöunda sæti deildarinnar, hefur nú 15 stig eftir 14 leiki.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.