Fara í efni
Mannlíf

KA fær tvo frá Noregi og Kári framlengir

Tveir knattspyrnumenn gengu í dag til liðs við KA og tilkynnt var að sá þriðji, hinn ungi Kára Gautason, hefði framlengt samning við félagið.

Nýju leikmennirnir tveir koma báðir frá norska félaginu Viking í Stavangri, þeir Kristoffer Forgaard Paulsen og Ingimar Torbjörnsson Stöle. Ingimar skrifaði undir þriggja ára samning við KA en Kristoffer kemur að láni.

„Ingimar sem varð 19 ára á dögunum er spennandi íslenskur kantmaður sem hefur verið viðloðandi yngri landslið Íslands undanfarin ár og hefur meðal annars leikið tvo leiki með U19 ára landsliðinu,“ segir á vef KA. „Hann hóf ferilinn hjá Fjölni og þekkir því gula og bláa litinn ansi vel en hann hélt utan til Vikings árið 2020 þar sem hann hefur leikið síðan. Hann skrifar eins og áður segir undir þriggja ára samning við KA.“

Kristoffer Forgaard Paulsen er norskur varnarmaður. Hann skrifaði undir eins árs lánsamning og leikur því með KA út komandi sumar. „Kristoffer sem varð 19 ára í dag er einnig afar spennandi leikmaður en hann er 192 cm á hæð og þrátt fyrir ungan aldur hefur Kristoffer leikið fyrir aðallið Viking bæði í efstudeild Noregs, Eliteserien, sem og í norska bikarnum,“ segir á KA-síðunni.

KA-menn tilkynntu einnig í dag að Kári Gautason hefði skrifað undir nýjan samning og væri nú samningsbundinn félaginu út árið 2025. „Kári sem er uppalinn hjá KA er afar spennandi leikmaður en þrátt fyrir að vera einungis 19 ára gamall hefur hann nú þegar leikið þrjá leiki í efstudeild og bikar fyrir meistaraflokk KA,“ segir á vef félagsins.

„Þá hefur Kári einnig leikið fjölda leikja í Lengjubikarnum og Kjarnafæðimótinu fyrir meistaraflokk KA. Um mitt síðasta sumar fór hann á láni til Magna á Grenivík þar sem hann lék alls átta leiki í baráttu liðsins í 2. deildinni.“