Fara í efni
Mannlíf

Hleypt í brekkurnar á föstudag klukkan 13

Þeir sem beðið hafa í ofvæni eftir því að geta rennt sér niður brekkur skíðasvæða landsins geta nú loks tekið gleði sína. Lyftur í Hlíðarfjalli verða ræstar um hádegisbil á föstudaginn og hleypt í brekkurnar klukkan 13.00. Hætt er við því að skíðamenn bæjarins verði eins og beljur að vori!

Takmarkanir á samkomum vegna Covid 19 verða rýmkaðar frá og með deginum, þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi.

Skíðasvæðum verður heimilt að hafa opið með takmörkunum. Í skíðalyftum skal tryggt að þeir sem eru einir á ferð þurfi ekki að deila lyftustól með öðrum, halda skal tveggja metra nálægðarmörk og sömu reglur gilda um grímunotkun og annars staðar.

Fyrirhugað er að fyrstu dagana verði skíðasvæðið í Hlíðarfjalli opið sem hér segir:

  • Föstudag 15. janúar kl. 13 til 19
  • Laugardag 16. janúar kl. 10 til 16
  • Sunnudag 17. janúar kl. 10 til 16

Á heimasíðu skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli eru eftirfarandi leiðbeiningar og skilaboð:

  • Leyfilegur hámarksfjöldi á svæðið á hverjum tíma er 30% af reiknaðri móttökugetu svæðisins. Endanleg hámarkstala verður gefin út þegar þegar hún liggur fyrir.
  • Mælt er með því að panta miða á heimasíðu Hlíðarfjalls til þess að kom í veg fyrir hópamyndun við miðasölu. Raðir verða afmarkaðar fyrir hvert svæði fyrir sig og farið er fram á að aðeins einn úr hverjum hóp fari í viðeigandi röð og hinir bíði í bílnum þangað til afgreiðslu hefur verið lokið. Halda skal tveggja metra fjarlægð frá næsta manni í röðinni.
  • Öflug upplýsingagjöf verður á heimasíðu og Facebook síðu svæðisins þar sem látið verður vita ef fjöldi er kominn að hámarki.
  • Miðasala verður aðeins opin í lúgum á vestanverðu skíðahóteli. Smávarningur verður seldur innandyra og er fólk beðið um að ganga inn í skíðahótelið að vestanverðu, en ekki fara í röðina við miðasölu.
  • Skíðaleiga verður opin með takmörkunum, pöntunarkerfi verður sett upp þannig að leigjendur þurfa að panta sér ákveðinn tíma til að fá þjónustu.
  • Veitingasala verður líklegast lokuð sem og Nestishús og Strýtuskáli, nema salerni verða opin í Strýtuskála. Salernisaðstaða verður í skíðahóteli, í Strýtuskála og vestan megin við skíðaleigu.
  • Grímuskylda er í og við skíðaskála, í skíðaleigu, á salernum og við upphaf hverrar lyftu.
  • Tveggja metra regla skal viðhöfð á öllu svæðinu.
  • Minni flutningsgeta verður í stólalyftum en venjulega. Þeir sem koma saman mega fara saman í stól en ef einstaklingur eða tveir vilja fara einir þá hafa þeir rétt á því.
  • Biðlað er til fjallaskíðafólks að virða það, að á meðan fjöldatakmarkanir eru á svæðinu, eiga þeir viðskiptavinir Hlíðarfjalls forgang, sem greiða fyrir aðgang og þjónustu. Þess vegna biðja forráðamenn í Hlíðarfjalli fjallaskíðafólk um að skíða ekki á svæðinu á meðan margir eru í fjallinu.