Fara í efni
Mannlíf

Færeyski framherjinn Pætur Petersen til KA

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA og færeyski framherjinn Pætur Petersen. Mynd af vef KA.

Knattspyrnudeild KA samdi í dag við Pætur Petersen en hann er 24 ára gamall landsliðsmaður Færeyja. Pætur gengur til liðs við KA frá færeyska liðinu HB í Þórshöfn og er samningurinn til þriggja ára.

„Pætur er öflugur framherji sem getur einnig leikið bæði á vinstri og hægri kanti. Hann braut sér nýverið leið í færeyska landsliðið og lék sína fyrstu A-landsleiki í nóvember. Þar áður lék hann fyrir öll yngrilandslið Færeyja,“ segir á heimasíðu KA í morgun.

„Með liði HB varð Pætur færeyskur meistari árið 2020 og bikarmeistari árin 2019 og 2020 auk þess að vinna Super Cup 2019 og 2021.“ Fram kemur að hann hafi tekið þátt í nokkrum Evrópuleikjum undanfarin ár sem ætti að nýtast vel þegar lið KA tekur þátt í Evrópukeppni í fyrsta skipti síðan 2003. „Pætur hefur æft með KA liðinu að undanförnu og erum við afar spennt að sjá til hans í gulu og bláu treyjunni á komandi sumri.“

Pætur er þriðji leikmaðurinn sem bætist við hópinn hjá KA í vetur; áður hafði KA samið við framherjann Harley Willard sem áður lék með Þór og þá kom bakvörðurinn Birgir Baldvinsson aftur heim eftir lánsdvöl hjá Leikni í Reykjavík.