Fara í efni
Íþróttir

Hrikalega mikil áskorun en skemmtileg

Alfreð Gíslason landsliðsþjálfari Þýskalands - goðsögn í handboltaheiminum. Ljósmynd: DHB.

Alfreð Gíslason, handboltagoðsögnin mikla úr KA, sem unnið hefur hvert þrekvirkið á fætur öðru sem þjálfari síðustu tvo og hálfan áratug, stýrir nú Þjóðverjum í fyrsta skipti á stórmóti og segist í raun renna nokkuð blint í sjóinn á HM í Egyptalandi.

Alfreð var ráðinn landsliðsþjálfari í febrúar og tók við liðinu í mars. „Tíminn síðan ég tók við liðinu hefur verið mjög sérstakur vegna Covid. Þýska deildin byrjaði seint í haust og spilað var mjög þétt þannig að erfitt var að fá æfingatíma fyrir landsliðið. Svo voru fimm leikmenn sem gáfu ekki kost á sér í liðið HM og aðrir fjórir, sem hefðu átt góða möguleika á að komast í hópinn, eru meiddir,“ sagði Alfreð í samtali við Akureyri.net í gærkvöldi.

Nær enginn tími til æfinga
„Þegar staðan er þessi er mjög erfitt að þróa liðið og breyta því eins og ég vildi gera. Segja má að tíminn hafi í raun ekki verið neinn og einu tveir æfingaleikir okkar fyrir HM voru gegn Austurríki – þó ekki æfingaleikir, heldur í undankeppni næsta Evrópumóts,“ sagði Alfreð.

Hann segir starf landsliðsþjálfara í Þýskalandi ekki erfiðara en önnur störf á ferlinum. „Nei, nei, þetta er ekkert meira pressa en ég er vanur. Þýska handboltasambandið er að vísu það stærsta í heimi og væntingarnar alltaf miklar,“ segir hann. Ítrekar hins vegar hve erfitt hefur verið að sinna starfinu vegna Covid en ekkert sé við því að gera.

Þegar Akureyri.net náði í Alfreð var hann í rólegheitum á hótelherbergi sínu í Kaíró, eftir að hafa náð í tvö auðveldustu stigin á handboltaferlinum. Lið Grænhöfðaeyja átti að mæta Þjóðverjum í gær en neyddist til þess að gefa leikinn þar sem aðeins níu leikmenn voru tilbúnir í slaginn, aðrir eru Covid smitaðir. „Ég hefði að sjálfsögðu frekar viljað spila leikinn en vinna hann svona,“ sagði Alfreð. „Við vissum nokkurn veginn í gær að leikurinn færi ekki fram en þó var ekki endanlega ákveðið fyrr en í dag, á leikdegi, að hann færi ekki fram,“ sagði Alfreð í gær. Hann vissi ekki betur en lið Grænhöfðaeyja yrði áfram með á mótinu. „Nánast allir handboltamenn frá Grænhöfðaeyjum spila á Spáni eða í Portúgal og það áttu einir sjö að koma þaðan í dag og inn í hópinn.“

  • Skömmu eftir að viðtalið við Alfreð birtist hér í dag tilkynnti alþjóða handknattleikssambandið að lið Grænhöfðaeyja væri hætt keppni á HM. Sú tilraun að sækja liðsstyrk hefði ekki gengið upp. 

Skil ákvörðun þeirra
Töluverða athygli vakti í Þýskalandi þegar fimm þekktir leikmenn gáfu ekki kost á sér í landsliðið fyrir HM en Alfreð segist sýna ákvörðun þeirra fullan skilning.

„Hvað get ég annað? Þeir treystu sér ekki til að fara af fjölskylduástæðum. Þrír þeirra eru frá Kiel, um og yfir þrítugt, eiga útivinnandi konur og eru með börn á leikskólum, sem öllum hefur verið lokað. Þessir menn eiga foreldra yfir sjötugt, svo lífið er að mörgu leyti viðkvæmt. Þetta er því mjög skiljanlegt og hreinlega ekkert við því að segja á svona sérstökum tímum. Ég geri samt ráð fyrir því að allir þessir menn gefi kost á sér á ný í mars þegar við leikum um sæti á Ólympíuleikunum í sumar.“

Alfreð lítur á björtu hliðarnar og bendir á að fyrst allir þessir leikmenn séu fjarverandi fái ungir og upprennandi leikmenn tækifæri og þátttaka í mótinu verði þeim dýrmæt reynsla.

Hann segist í raun hreinlega ekki hafa hugmynd um hvað geti talist raunhæft markmið Þjóðverja á mótinu. „Við gefum að minnsta kosti ekkert út um það! Við hugsum bara um einn leik í einu og sjáum svo til. Þótt okkur vanti marga erum við með mjög gott lið þótt það sé ungt; varnarlega er liðið að vísu dálítið brothætt en við erum með frábæra markmenn og sóknarlega erum við allt í lagi. En, eins og ég sagði áðan, er auðvitað vandamál að taka við liði og geta nánast ekkert æft. Við æfðum þrjá daga saman í nóvember! Þegar ástandið er þannig er nánast ómögulegt að þjálfa upp þær leikaðferðir sem ég vil nota – það tekur miklu lengri tíma. En verkefnið er samt skemmtilegt; hrikalega mikil áskorun en skemmtileg, og það hefur verið andskoti gaman að vinna með þessum strákum. Þeir eru mjög áhugasamir.“

Lofaði bara að hætta í deildinni!
Eftir frábæran feril sem leikmaður með KA, KR, Tusem Essen í Þýskalandi og Elgorriaga Bidasoa á Spáni, snéri Alfreð sér að þjálfun þar sem hann hefur náð stórkostlegum árangri.

Þjálfaraferillinn hófst þegar hann flutti heim og tók við KA, sem varð bæði bikarmeistari og Íslandsmeistari undir stjórn hans. Fyrsta þjálfarstarf Alfreðs erlendis var hjá Hameln í Þýskalandi, síðan tók hann við Magdeburg, þá Gummersbach og loks Kiel sem hann þjálfaði rúman áratug og náði ótrúlegum árangri. Þá má ekki gleyma því að Alfreð þjálfaði landslið Íslands frá 2006 til 2008.

Alfreð hætti sem þjálfari Kiel sumarið 2019, eftir 22 ára starf í sterkustu deild heims. „Ég var búinn að lofa konunni minni að hætta að þjálfa í deildinni þegar ég yrði sextugur og stóð við það. Þetta var krefjandi tími og síðustu 15 árin má segja að ég hefi verið í sömu rútínunni í tíu og hálfan mánuð á ári! Þetta var orðið gott.“

Margir töldu að þjálfaraferill Alfreðs væri á enda runninn, en hann segist aldrei hafa gefið út slíka yfirlýsinga. „Ég lofaði bara að hætta í þýsku deildinni!“ segir hann og hlær.

Mikið horft á sjónvarpið
Starf landsliðsþjálfara Þýskalands er að mörgu leyti draumastarf fyrir Alfreð og hann hafði áður verið beðinn um að taka liðið að sér. „Þeir töluðu við mig 2014, áður en Dagur Sigurðsson var ráðinn, en þá gat ég ekki tekið starfið að mér. Ég var nýbúinn að endurnýja samninginn við Kiel, í næst síðasta skipti; verkefnið þá var að yngja liðið upp og búa til annað meistaralið, og ég get ekki hlaupið frá því verki.“

Alfreð og eiginkona hans, Kara Guðrún Melstað, búa í grennd við Magdeburg í gamla Austur-Þýskalandi. Þaðan flakkaði Alfreð um landið til að horfa á handbolta, eftir að hann tók við landsliðinu, en eftir að ástandið versnaði vegna Covid var það ekki mögulegt svo hann hélt sig heima og horfði á leiki í sjónvarpinu. „Þá var mikið horft á sjónvarpið og margir Zoom fundir á dagskrá!“

Erfitt að spá
Þegar Alfreð er beðinn um að meta hvaða lið hafi verið best á mótinu hingað til, og hvaða lið sé sigurstranglegast, segir hann býsna erfitt að spá í spilin.

„Fyrir mót spáði ég því að Danir, Norðmenn, Spánverjar og Króatar yrðu með bestu liðin. Ég hef ekki séð Dani spila ennþá, en sá leik Frakka og Norðmanna, þar sem Frakkarnir voru mjög sterkir. Markmaðurinn þeirra varði eins og brjálæðingur. Spánverjar eru hins vegar ekki eins sterkir og ég bjóst við, hafa að minnsta kosti ekki sýnt það ennþá. Það er því erfitt að spá um það hvernig mótið þróast.“

Þjóðverjar mæta Ungverjum á morgun, í síðasta leik A-riðils, þar sem ræðst hvort verður efst í riðlinum. „Ungverjar eru með gott lið, þeir hafa orðið sífellt betri undanfarin og hafa það fram yfir okkur að að vera rútíneraðir sem lið. En við sjáum til hvað verður...“

Fyrsta opna viðtals núverandi ritstjóra Akureyri.net við Alfreð, sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í júní 2012, eftir að THW Kiel varð Þýskalandsmeistari án þess að tapa einum einasta leik. Það var einstakt afrek; hafði aldrei gerst í neinni grein í sögu þýskra atvinnuíþrótta.

Fyrsti titill KA! Alfreð Gíslason, númer 14 í aftari röð, eftir að KA varð bikarmeistari vorið 1995. Liðið vann þá Val í æsispennandi, tvíframlengdum úrslitaleik í Laugardalshöllinni.

  • Efsta myndin: Alfreð og Ólafur Stefánsson eftir sigur SC Magdeburg í Meistaradeild Evrópu vorið 2002.