Fara í efni
Fréttir

„Skelfing þótti mér tréð fallegt ...“

Myndir úr safni Minjasafnsins á Akureyri.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

22. desember – Jólatrésskemmtun

Jólatrésskemmtanir urðu afar vinsæl skemmtun einkum milli jóla og nýárs á 20. öldinni, bæði í skólum og hjá félagasamtökum. Fyrsta þekkta skemmtun af þeim toga var haldin af Thorvaldsenfélaginu í Reykjavík 28. desember 1876. Góðborgarar á Akureyri buðu börnum, ekki síst þeim sem höllum fæti stóðu, til jólaskemmtana í heimahúsum í upphafi 20. aldar þar til hin ýmsu félaga- og góðgerðarsamtök tóku við því hlutverki.

Í minningum sínum fjallar Hulda Á. Stefánsdóttir um jólaboð hjá hjónunum Ölmu og Oddi Thorarensen, apótekara, jólin 1904. „Af því, sem gerðist þennan vetur, er mér þó einna minnisstæðast jólaboðið í Apótekinu. Þangað var okkur öllum boðið eftir aftansöng á aðfangadag jóla. … Á jólunum í Apótekinu sá ég í fyrsta skipti jólatré, það er að segja grenitré. Ég hafði séð slík tré á mynd og stundum spurt foreldra mína að því, hvort við gætum ekki eignast slíkt tré. Pabbi var því andvígur, meðan við gætum ekki sjálf ræktað okkar jólatré.

Skelfing þótti mér tréð fallegt, með öllum litlu kertunum og skrautinu, og svo bættust við jólapokarnir með öllu sælgætinu. Þetta var nú meiri dýrðin. Svo var kveikt á kertunum, gengið kringum tréð og sungið. Ekki hafði mig órað fyrir því, að annað eins gæti gerst.

Og enn bættist við; síðar um kvöldið gerði lítill jólasveinn sig heimakominn. Hann var með poka á bakinu, fullan af bögglum. Jólagjöfum til allra sem viðstaddir voru. Ég … trúði því fastlega, að þetta væri raunverulegur jólasveinn og stóð því hálfgerður stuggur af honum; en þegar hann rétti mér böggul með mikilli vinsemd, hvarf mér öll hræðsla. Í bögglinum var lítill, fallegur blómavasi með tveimur upphleyptum englum framan á. Þessi vasi fylgdi mér lengi.“

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla