Fara í efni
Fréttir

Nýr veitingastaður: „Litla systir Dillsins!“

Gunnar Karl Gíslason matreiðslumeistari á jarðhæð hótelsins þar sem unnið er hörðum höndum að því að standsetja veitingastaðinn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Meistarakokkurinn Gunnar Karl Gíslason, stofnandi og eigandi veitingastaðarins Dill í Reykjavík, lætur gamlan draum rætast og opnar veitingastað á Akureyri innan fárra vikna. Staðurinn verður á jarðhæð Hótels Akureyrar í gamla Skjaldborgarhúsinu við Hafnarstræti.

Dill, sem Gunnar opnaði fyrir 13 árum, er eini veitingastaðurinn hérlendis sem státar af hinni eftirsóttu Michelin stjörnu. Gunnar segir nýja staðinn ekki útibú frá Dilli „en mig langar til að hann verði einskonar litla systir Dillsins!“ segir hann í samtali við Akureyri.net.

Mjög spenntur

Gunnar Karl er Akureyringur, sonur Gísla Sigurgeirssonar fréttamanns og Hildar Halldóru Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings. Hann lærði til matreiðslumanns hjá Snæbirni Kristjánssyni og Héðni Beck á Fiðlaranum á sínum tíma og flutti eftir það suður á bóginn. Síðan eru liðin 25 ár.

„Ég er mjög spenntur að koma aftur norður og gera það sem ég elska,“ segir Gunnar. Yfirkokkur á nýja staðnum verður Rafn Svansson, Ólafsfirðingur sem vann á sínum tíma hjá Gunnari á Dilli, en hann segist sjálfur munu verða með annan fótinn hér fyrir norðan. „Konan mín er úr Kópavogi, við eigum fjögur börn svo það er ekki einfalt að flytja aftur norður eins og mig hefur lengi langað – en er þetta ekki ágætt fyrsta skref og hæfilega lúmskt?“ spyr hann og skellihlær.

Fimm rétta seðill

Nýi staðurinn, sem mun heita North, á ekki að verða eins og Dill, en fallegur, vinalegur og huggulegur, eins og Gunnar tekur til orða. Og maturinn vitaskuld framúrskarandi, varla þarf að taka það fram. Staðurinn verður lítill; þar verða sæti fyrir um það bil 20 manns.

Á veitingastaðnum verður borinn fram morgunverður fyrir gesti og gangandi og síðan verður North opinn á kvöldin. Gestir staðarins þurfa ekki að verja miklum tíma í að hugleiða hvað þeir vilja panta; einn fimm rétta matseðill verður alltaf í boði.

Gunnar Karl og Daníel Smárason, framkvæmdastjóri hótelsins, ákváðu fyrir nokkrum mánuðum að láta slag standa og fara í samstarf, en hafist var handa við breytingar á salnum fyrir tveimur vikum.

Matur úr héraði

Á North verður notað hráefni úr héraði í eins miklum mæli og kostur er. „Hér hefur ekki verið staður sem einbeitir sér að hráefni úr nærumhvefinu síðan Friðrik Valur hætti með Friðrik fimmta. Dill hefur alltaf einblínt á íslenskt hráefni en hér vil ég ganga enn lengra: allt hráefni sem mögulegt er að fá á svæðinu verður héðan. Við viljum að North verði eins grænn veitingastaður og hægt er.“

Daníel og hans fólk rekur svokallað kálver, Urban Farm, í þar næsta húsi, og Gunnar hugsar sér gott til glóðarinnar. „Það er ótrúlegur skrúðgarður. Mér hefur verið lofað að hægt sé að rækta hvað sem mér dettur í hug, hvers konar kál og krydd, og það er gríðarlegt tilhlökkunarefni.“

Hráefni frá skólasystkinum

Gunnar bjó sem barn á Knarrarbergi handan fjarðarins og gekk í Laugalandsskóla. „Mörg skólasystkini mín búa enn í sveitinni og ég gæti auðveldlega búið til heilan matseðil bara með hráefni frá þeim og er reyndar ákveðinn í því. Það verður ekki opnunarseðillinn en ég mun einhvern tíma setja saman þannig seðil.“

Hann segir nánast eins og að koma heim, að setja upp veitingastað í gamla Skjaldborgarhúsinu. „Þegar ég byrjaði að læra á Fiðlaranum kom ég oft hingað á hótelið eftir vinnu þar, tók vaktir hér sem næturvörður, skúraði salinn og þreif og gerði svo klárt fyrir morgunmatinn. Svo vann pabbi hér í prentsmiðjunni í gamla daga.“

Opnað í ágúst

Salurinn verður tekinn í notkun á ný eftir um það bil tvær vikur og þá borinn fram morgunverður en Gunnar segir að North verði opnaður fyrir kvöldgerðargesti í ágúst.

Þegar spurt er út í nafnið – North, segir Gunnar Karl Gíslason:

„Fyrir því eru nokkrar ástæður. Staðurinn er fyrir norðan, ég er að norðan, fyrsta bókin mín hét NORTH, og síðast en ekki síst: hráefnið verður að norðan.“

Gunnar Karl Gíslason fyrir utan Hótel Akureyri við Hafnarstræti þar sem hann opnar bráðlega veitingastaðinn North. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson