Fara í efni
Fréttir

Matthías Örn þjálfar hjá píludeild Þórs

Viðar Valdimarsson, stjórnarmaður í píludeild Þórs, og Matthías Örn Friðriksson, nýr þjálfari deildarinnar, Mynd af heimasíðu Þórs.

Píludeild Þórs hefur ráðið Matthías Örn Friðriksson sem þjálfara. Gengið var frá samningi milli deildarinnar og Matthíasar í dag og gildir samningurinn í eitt ár. Matthías mun sjá um almenna þjálfun og þjálfun afrekshóps deildarinnar. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs.

Matthías er einn fremsti pílukastari landsins og hefur verið formaður Íslenska pílukastsambandsins í nokkur ár. „Hann hefur verið í fararbroddi við uppbyggingu á pílukastinu á Íslandi undanfarin ár og mikil fyrirmynd fyrir aðra keppendur,“ segir á Þórssvefnum.

Mikil tilhlökkun

Matthías Örn segist spenntur fyrir verkefninu. „Ég hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni. Það er mikill uppgangur í pílunni hjá Þór og vonandi mun ég ná að miðla af minni reynslu og hjálpa bæði þeim pílukösturum sem eru að taka sín fyrstu skref í íþróttinni og þeim sem lengra eru komnir,“ sagði hann í dag eftir að gengið var frá samningnum.

Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs, kveðst í skýjunum með ráðninguna. „Það er mikið gleðiefni fyrir Píludeild Þórs að Matti hafi verið tilbúinn að taka við sem þjálfari hjá okkur. Þetta er í fyrsta skipti sem þjálfari er ráðinn hjá Píludeild Þórs og því ríkir mikil spenna hjá stjórn og meðlimum deildarinnar! Mikill uppgangur hefur verið hjá okkur og meðlimum fjölgað um tæplega 50% á síðustu mánuðum. Við horfum því björtum augum á næstu mánuði og það má með sanni segja að framtíð Píludeildar Þórs sé björt,“ segir Davíð Örn.

Hann vekur athygli á að aðstaða píludeildarinnar er öllum opin á mánudags- og miðvikudagskvöldum út janúar. Nánar hér um starfsemi deildarinnar á www.thorsport.is

Matthías Örn, sá þriðji hvítklæddi frá hægri, fagnar markinu sögulega gegn KA á Þórsvellinum. Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs, fremstur á myndinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Gerði sögulegt mark!

Til gamans má geta þess að Matthías Örn er Þórsurum að góðu kunnur enda lék hann knattspyrnu með félaginu á árum áður, m.a. í meistaraflokki frá 2006 til 2009. Hann er frá Dalvík en kom til Þórs í 3. flokki sumarið 2002.

Margir muna að það var einmitt Matthías Örn sem gerði fyrsta mark félagsins á Þórsvellinum í vígsluleik eftir miklar endurbætur á svæðinu áður en Landsmót Ungmennafélags fór þar fram 2009; áhorfendastúka hafði verið byggð og auk þess komið upp hlaupabraut og annarri aðstöðu fyrir frjálsíþróttamenn. Þór vann þá KA 3:2 í næst efstu deild Íslandsmótsins, 22. júlí. Matthías á að baki 81 meistaraflokksleik með Þór og skoraði sjö mörk.