Fara í efni
Sverrir Páll

Sókndjarfur Dani til liðs við Þórsara

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, Christian „Greko“ Jakobsen og Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnudeild Þórs hefur samið við danskan knattspyrnumann, Christian Jakobsen, til tveggja og hálfs árs; út árið 2027. Jakobsen er 32 ára og leikur annað hvort á miðjunni eða sem framherji. Hann hefur leikið með liði Hvidovre í Kaupmannahöfn síðustu þrjú ár.

Jakobsen – alltaf kallaður „Greko“ – á að baki 196 leiki í dönsku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 36 mörk. Þá hefur hann spilað yfir 100 leiki í næst efstu deild í Danmörku. Hann er sagður fjölhæfur leikmaður sem getur leikið allar stöður framarlega á vellinum.

Daninn er mættur til Akureyrar en verður ekki löglegur með Þór fyrr en gluggi til félagaskipta verður opnaður á ný hérlendis eftir viku, fimmtudaginn 17. júlí. Þór tekur á móti Leikni í Boganum á laugardaginn en fyrsti leikur Jakobsen með Þór verður væntanlega gegn HK í Kórnum í Kópavogi daginn eftir að glugginn verður opnaður, föstudaginn 18. júlí.

Christian „Greko“ Jakobsen í Boganum.

Greko hóf ferilinn hjá Hvidovre, þar sem hann lék frá 2012 til 2015. Síðan lék hann með Roskilde, Brøndby, SønderjyskE og Lyngby áður en hann samdi við uppeldisfélagið á ný 2022.

Þórsarar eru í sjötta sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins, með 17 stig að loknum 11 leikjum. Deildin er hálfnuð; efsta liðið að loknum 22 leikjum vinnur sér þátttökurétt í Bestu deildinni næsta sumar en næstu fjögur fara í umspil um annað laust sæti í efstu deild Íslandsmótsins að ári.

  • Til gamans má geta þess að Greko og Marcel Rømer, sem gekk til liðs við KA fyrr í sumar, hafa tvisvar verið samherjar í heimalandinu. Fyrst hjá SønderjyskE frá 2017 til 2019 og síðan með Lyngby frá 2020 til 2022.

Mendelssohn á Akureyri

Sverrir Páll skrifar
12. júní 2025 | kl. 12:45

Menntun eða próf II

Sverrir Páll skrifar
18. október 2024 | kl. 14:00

Menntun eða próf I

Sverrir Páll skrifar
17. október 2024 | kl. 16:00

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00