Fara í efni
Fyrirtækið Heilsuvernd

SBA keyrði 4.400 farþega af skipum í dag

Tvö farþegaskip í gosmóðunni á Akureyri í gær. Fjögur skip voru við bryggju í bænum í móðu í morgun; tvö á tanganum, eitt við Torfunefsbryggju og það fjórða í Krossanesi. Mynd: Þorgeir Baldursson

Það var sannarlega mikið umleikis hjá ferðaþjónustufyrirtækinu SBA-Norðurleið í dag, laugardag. Fjögur skemmtiferðaskip lögðust að bryggjum á Akureyri í dag og þúsundir farþega stigu á land. „Þetta er langstærsti skipadagur sumarsins, við keyrðum um 4.400 farþega,“ sagði Gunnar M. Guðmundsson framkvæmdastjóri SBA-Norðurleiðar í samtali við akureyri.net undir kvöld. 

Óhætt er að segja að öllu sé tjaldað til á svona degi. Gunnar segir að 65 rútur og 130 manns hafi verið í vinnu hjá þeim við þetta verkefni í dag og að auki hafi um 10 rútur SBA-Norðurleiðar verið í öðrum verkefnum hér norðanlands. Á svona dögum dugar bílafloti fyrirtækisins ekki til og Gunnar sagðist hafa þurft að leigja 10 stórar rútur til að anna skipatraffík dagsins. Og þar fyrir utan eru fleiri fyrirtæki sem sinna akstri farþega skemmtiferðaskipa, þótt SBA-Norðurleið sé langstærst.

Mikla skipulagningu þarf til að púsla saman svona annasömum degi. Gunnar segir að t.d. þurfi að passa upp á tímalengd aksturs upp á hvíldartíma bílstjóra og svo séu seinkanir fljótar að setja strik í reikninginn ef bilanir koma upp í tækjum eða farþegar veikjast eða slasast. „En það gekk allt upp í dag 100%, ekkert kom upp á með bíla eða farþega,“ segir Gunnar.

Ekki má gleyma því að fjölmörg afleidd störf skapast á viðkomustöðum bílanna, t.d. við Goðafoss og víðs vegar um Mývatnssveit. Þannig að áhrifa skemmtiferðaskipa og farþega þeirra gætir víða.

Aðspurður segir Gunnar að sumarið sé rosalega vel bókað og auk útgerðarinnar hér fyrir norðan er fyrirtækið með um 35-40 bíla fyrir sunnan í akstri, þannig að allt í allt er SBA-Norðurleið með yfir 100 bíla í rekstri.