Fara í efni
Bogfimi

Níu kylfingar frá GA á Íslandsmótinu í golfi

Nýkrýndir Akureyrarmeistarar, þau Víðir Steinar Tómasson og Lilja Maren Jónsdóttir, verða bæði í eldlínunni á Íslandsmótinu í golfi. Myndir: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmótið í golfi hefst að morgni fimmtudags á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði. Alls taka 9 keppendur úr Golfklúbbi Akureyrar þátt í mótinu, sem lýkur síðla sunnudags þegar Íslandsmeistarar í kvenna- og karlaflokki verða krýndir.

Í kvennaflokki er 51 keppandi skráður til leiks og þar á GA þrjá fulltrúa. Það eru þær Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Bryndís Eva Ágústsdóttir og Lilja Maren Jónsdóttir. Andrea er í 7. sæti yfir forgjafarlægstu kvenkylfinga mótsins.

Af 87 keppendum í karlaflokki eru sex frá GA, þeir Mikael Máni Sigurðsson, Óskar Páll Valsson, Tumi Hrafn Kúld, Valur Snær Guðmundsson, Veigar Heiðarsson og Víðir Snær Tómasson. Veigar er þeirra forgjafarlægstur og í 6.-7. sæti yfir forgjafarlægstu keppendur karlaflokksins.

Nánast allir bestu kylfingar landsins mæta til leiks um helgina og leiða saman kylfur sínar. Leiknir verða fjórir hringir og að afloknum öðrum hring á föstudag verður keppendum fækkað. Þeir keppendur sem þá verða fyrir neðan miðja skortöflu detta úr leik en hinir leika seinni tvo hringina um helgina.

Sýnt verður beint frá mótinu síðustu þrjá dagana á RÚV og hefst útsending kl. 15:30 á föstudag en kl. 15 á laugardag og sunnudag.

Hægt verður að fylgjast með skori keppenda í mótinu á þessari síðu.