Fara í efni
Aron Einar Gunnarsson

Gríðarlega mikilvægur sigur KA-manna

Hallgrímur Mar Steingrímsson, til hægri, eftir að hann skoraði seinna mark KA í dag. Til vinstri er Guðjón Ernir Hrafnkelsson. Mynd: Ármann Hinrik.

Það var mikið undir í dag þegar KA tók á móti ÍA í efstu deild knattspyrnu karla. Fyrir leikinn voru liðin jöfn á botni deildarinnar og ljóst að sigur í dag væri báðum liðum gríðarlega mikilvægur til að koma sér ofar í töfluna.

Eftir frekar bragðdaufan leik voru það heimamenn í KA sem fóru með góðan 2:0 sigur af hólmi og lyftu sér þar með af botninum.

Birnir Snær Ingason sem gekk óvænt til liðs við KA í fyrradag var mættur norður og hóf leikinn á varamannabekknum. Skagamenn voru líka búnir að styrkja sitt lið í upphafi félagaskiptagluggans og Daninn Jonas Gemmer var mættur í byrjunarliðið hjá þeim. Hins vegar var skarð fyrir skildi í hópi ÍA því tveir sterkir leikmenn voru í leikbanni og einn var seldur til útlanda á dögunum. Til að krydda stemninguna enn meira fyrir leikinn tók Þórsarinn Lárus Orri Sigurðsson við þjálfun ÍA-liðsins á dögunum og langaði því eflaust enn meira en ella að næla í sigur í dag.

Jóan Símun Edmundsson, liggjandi, skorar fyrra mark KA í dag eftir sendingu Ingimars Stöle, lengst til vinstri. Mynd: Ármann Hinrik.

KA-menn voru sterkari í upphafi leiks og náðu forystunni eftir korters leik með góðu marki. Marcel Römer vann boltann á eigin vallarhelmingi og kom honum á Hallgrím Mar Steingrímsson. Hallgrímur átti stórkostlega stungusendingu á Ingimar Torbjörnsson Stöle, sem lék inn í teiginn og renndi boltanum til hliðar þar sem Jóan Símun Edmundsson kom aðvífandi og straujaði boltann í netið framhjá þremur varnarmönnum ÍA.

Nokkrum mínútum síðar gerðu KA-menn að því er virtist réttmætt tilkall til vítaspyrnu, þegar boltinn virtist augljóslega fara í hönd eins Skagamannsins inni í vítateig, en Arnar Þór Stefánsson dómari sá ekki ástæðu til að flauta.

Steinþór Már Auðunsson, „Stubbur“, lék í marki KA á ný í dag eftir töluverða fjarveru vegna meiðsla. Hér er hann ásamt Viktori Jónssyni, fyrirliða Skagamanna. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Annars einkenndist fyrri hálfleikurinn af mikilli baráttu á báða bóga og hvorugt liðið náði einhverjum tökum á honum. Leikur KA-manna var þó talsvert mun betri en í síðasta leik þegar liðið steinlá gegn FH.

Eftir hlé hélt sama baráttan áfram og Skagamenn voru meira með boltann á köflum. Leikur þeirra var hins vegar afskaplega hægur, fyrirsjáanlegur og andlaus og KA átti ekki í miklum vandræðum með að verjast dauflegum sóknarlotum þeirra. Steinþór Már var aftur nættur í markið og þurfti einu sinni að verja vel, um miðjan hálfleikinn, og strax á eftir fengu KA-menn algert dauðafæri. Eftir góða skyndisókn fékk Birnir Snær, þá nýkominn inn á sem varamaður, boltann á vítateignum. Hann gerði allt rétt, lék á varnarmann og komst í opið færi en Árni Marinó í marki gestanna varði frábærlega. Varnarmenn ÍA voru hins vegar algerlega úti á þekju. – Sjá myndirnar hér að neðan:

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Mynd: Ármann Hinrik

Skagamenn fengu eitt færi til viðbótar, þegar Viktor Jónsson skallaði fyrirgjöf í slána á 82. mínútu. Tveimur mínútum síðar gerðu heimamenn hins vegar út um leikinn eftir skyndisókn. Bjarni Aðalsteinsson átti langa sendingu fram á Ásgeir Sigurgeirsson á hægri kantinum og Ásgeir kom boltanum inn á teig til Hallgríms Mars. Hallgrímur náði skoti á markið og boltinn lak í hornið eftir viðkomu í varnarmanni. Eftir þetta var aldrei spurning um úrslitin.

Gríðarlega mikilvægur KA-sigur í höfn og liðið er nú komið upp úr fallsæti í bili. Töluverð batamerki voru á liðinu frá afhroðinu gegn FH en það verður að segjast eins og er að Lárusar Orra Sigurðssonar bíður ekki auðvelt verkefni að reyna að koma einhverju biti í sitt lið.

Hallgrímur Mar Steingrímsson, lengst til vinstri, tryggir sigur KA með seinna markinu nokkrum mínútum fyrir leikslok. Mynd: Ármann Hinrik

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA og hans menn höfðu fulla ástæðu til að brosa breitt eftir leikinn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Lárus Orri Sigurðsson, nýr þjálfari ÍA (til hægri), er fyrrum leikmaður og þjálfari Þórs, og Dean Martin, aðstoðarmaður hans, er fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA. Mynd: Ármann Hinrik