Fara í efni
Alþingiskosningar

Framsókn hyggst „fjárfesta í fólki“

Oddvitar Framsóknarflokksins í kjördæmunum sex - Lilja Alfreðsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Willum Þór Þórsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen, Ásmundur Einar Daðason og Sigurður Ingi Jóhannsson.

Fjárfesting í fólki er yfirskrift kosningaáherslna Framsóknarflokksins fyrir komandi alþingiskosningar sem kynntar voru í gær. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, sagði þá að mikill árangur hafi náðst í breiðu ríkisstjórnarsamstarfi. „Þegar litið er yfir sviðið þá virðumst við vera eini miðjuflokkurinn. Miðjuflokkur sem vinnur að stefnumálum sínum með samvinnu og jöfnuð að leiðarljósi,“ sagði formaðurinn.

Í kosningaáherslum Framsóknarflokksins kennir ýmissa grasa eins og vænta mátti. Hér eru nokkur atriði:

  • Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar. Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu.
  • Framsókn vill að skoðað verði hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans. Það þarf einfaldlega að nota þær aðferðir sem skila bestum árangri á sem skjótasta máta.
  • Framsókn ætlar að tryggja að öll börn njóti sömu réttinda til opinberrar þjónustu í anda nýrrar löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem mun fækka alvarlegum tilvikum. Eitt flóknasta viðfangsefni íslenskra stjórnvalda síðustu áratugi er sú staðreynd að börn hér á landi þurfa oft að bíða óhóflega lengi eftir greiningu eða þjónustu við mögulegum vanda. Oft er jafnvel um að ræða þekktan vanda sem þarfnast staðfestingar opinberra aðila til að geta hlotið nauðsynlega þjónustu.
  • Framsókn vill að ríkið styðji við frístundir barna með 60 þúsund króna greiðslu til allra barna á ári og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Sýnt hefur verið fram á að tómstundir styrkja þroska barna, líkamlega og andlega, og ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi.
  • Framsókn vill afnema reglur um að fólk fari á eftirlaun eða hætti störfum við ákveðinn aldur. Þeir sem vilja vera virkir á vinnumarkaði áfram eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitanda stendur til þess.
  • Framsókn vill heildarendurskoðun á málefnum öryrkja hér á landi. Sú endurskoðun verður gerð með þau markmið bæta stöðu öryrkja og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðsins.
  • Framsókn vill að skipulags- og húsnæðismál séu í sama ráðuneyti til að auka skilvirkni þegar kemur að skipulagsmálum sveitarfélaga. Með því má stytta tímann sem þau taka, gera sveitarfélögum kleift að bregðast fyrr við lóðaskorti og nægilegt framboð af lóðum til húsbygginga tryggt á hverjum tíma.
  • Menntastefna til ársins 2030 er leiðarljós Framsóknar í menntamálum, enda er hún lögð fyrir Alþingi af núverandi mennta- og menningarmálaráðherra.
  • Framsókn vill efla efnahagslífið til að skjóta fleiri stoðum undir innlenda verðmætasköpun svo sem uppbyggingu í skapandi greinum. Fyrstu skrefin hafa verið stigin með hagvísum skapandi greina og sérstöku rannsóknarsetri. Næsta skref er sérstakt ráðuneyti skapandi greina.
  • Framsókn er málsvari lítilla og meðalstórra fyrirtækja og vill taka upp þrepaskipt tryggingagjald og lækka það á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samhliða því er nauðsynlegt að taka upp fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja., Hreinan hagnað fyrirtækja umfram 200 m.kr. á ári þarf að skattleggja hærra til á móti lækkuninni til að hún dragi ekki úr getu ríkissjóðs til að standa undir öflugu velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfi.
  • Framsókn telur veruleg tækifæri liggja í útflutningi á þekkingu í formi ráðgjafar og fjárfestinga á erlendum vettvangi þar sem menntun og þekking á hlutum eins og endurnýjanlegri orku skipta miklu máli.
  • Stórkostleg aukning í framlögum til samgöngumála er raunveruleiki. Alls staðar er verið að byggja upp. Öflugir og öruggir innviðir eru grunnurinn að betri lífsgæðum. Á kjörtímabilinu hefur aldrei áður verið varið jafn miklum fjármunum til samgangna. Mikið hefur áunnist, en framkvæmda og viðhaldsþörf er hvergi nærri lokið.
  • Framsókn vill að á hverjum tíma sé alltaf unnið að byggingu að minnsta kosti einna jarðganga á landinu.
  • Framsókn vill beita fjárhagslegum hvötum til að bæta aðgengi að opinberri þjónustu við íbúa á á skilgreindum brothættum svæðum á landsbyggðinni til að jafna aðstöðumun. Dæmi um velheppnaða aðgerð er Loftbrúin. Einnig er hægt að nýta ákvæði í lögum um nýjan Menntasjóð til að stuðla að búsetu sérfræðinga, til dæmis lækna, fjarri höfuðborginni.
  • Framsókn vill standa vörð um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi með dyggum stuðningi við íslenska matvælaframleiðslu sama í hverju hún felst.

Nánar hér á vef Framsóknarflokksins

Lágmarksbirgðir verði alltaf til í landinu

Skapti Hallgrímsson skrifar
10. nóvember 2022 | kl. 13:40

Mikil vonbrigði með ráðherraskipan

Skapti Hallgrímsson skrifar
30. nóvember 2021 | kl. 14:00

Enginn ráðherra úr Norðausturkjördæmi

Skapti Hallgrímsson skrifar
28. nóvember 2021 | kl. 13:18

Erindi Birgis í HA: Búið að kjósa og hvað nú?

Skapti Hallgrímsson skrifar
29. september 2021 | kl. 11:20

Kosningaþátttaka á Akureyri var 79,33%

Skapti Hallgrímsson skrifar
27. september 2021 | kl. 11:26

Þjóðin hafnar öfgum – vill stöðugleika

Skapti Hallgrímsson skrifar
26. september 2021 | kl. 22:50