Við gerðum jafntefli við heimsmeistara og það hringdi ekki einn fjölmiðill í okkur!

Gudmunda1Guðmunda Brynja Óladóttir er tvítug stelpa frá Selfossi. Gumma, eins og hún er alltaf kölluð, er fyrirliði knattspyrnuliðs Selfoss og sóknarmaður í A-landsliði kvenna í knattspyrnu.

Búin að æfa fótbolta í 15 ár. Aldrei hætt og aldrei æft aðra íþrótt!

Ég var sex ára þegar ég byrjaði formlega að æfa fótbolta. Það þróaðist þannig að Maggi, frændi minn, byrjaði að æfa fótbolta þegar hann var 6 ára, þá var ég 4 ára. Við lékum okkur ótrúlega mikið saman, hann var að reyna að kenna mér eitthvað og æfði skotin sín á mér, og henti mér alltaf í mark. Þannig fór ég að æfa fótbolta, þetta kveikti áhugann. Ég er búin að æfa fótbolta í 15 ár. Aldrei hætt og aldrei æft aðra íþrótt.

Hvaða titla hefurðu unnið?

Ég hef orðið Íslandsmeistari með 3. flokk og ég hef lent í 4.sæti á Evrópumóti með U17 landsliði sem eru mínir stærstu titlar sem ég hef unnið með liði. Sem einstaklingur hef ég orðið íþróttakona Árborgar fjórum sinnum, íþróttakona Selfoss tvisvar sinnum, HSK einu sinni, og efnilegasti leikmaður pepsideildarinnar 2013.

Hvað er það stærsta á fótboltaferlinum?

Gudmunda2
Ég hef farið tvisvar í bikarúrslitaleik sem eru stærstu leikirnir á sumrin. Einnig var eitt af því stærsta þegar ég tók þátt í 4 liða úrslitum fyrir Evrópumeistaramótið með U17 landsliðinu.

„Stelpurnar í landsliðinu eru að gefa ótrúlega mikið af sér og kenna okkur ungu og óreyndu leikmönnunum“

Ég fór á fyrstu landsliðsæfinguna þegar ég var 14 ára og svo spila ég fyrsta landsleikinn 15 ára, þá með U16 landsliðinu. Ég spila svo með yngri landsliðunum alveg upp í 19 ára og spila svo minn fyrsta A landsliðsleik um tvítugt.
Þá er ég búin að vera í hóp en ekki spila, búin að vera varamaður og utan hóps. Það er ótrúlega gaman að vera í landsliðinu og mikil reynsla. Stelpurnar í landsliðinu gefa ótrúlega mikið af sér og kenna okkur ungu og óreyndu leikmönnunum þvílíkt mikið sem er ótrúlega gaman.

„Þarna eru bestu leikmenn hverra landa í hverri stöðu“

Helsti munurinn á því að spila með Selfossi eða landsliðinu eru gæði leikmanna. Þarna eru bestu leikmenn hverra landa, eða á Íslandi í hverri stöðu. Gæðin, sendingarnar og tempóið er miklu hærra en hjá Selfossi. Þar liggur mesti munurinn.

Gudmunda3

Hefurðu fengið tilboð til að fara út?

Já ég hef fengið tilboð að fara í háskóla til Bandaríkjanna. Ég hef líka fengið tilboð til að fara í atvinnumennsku í Noregi og Kýpur, bara út um allt. Mig langar að fara út einhverntímann, en mig langar ekki að fara út bara til þess að fara út. Ég vil fara út til liðs þar sem ég mun bæta mig og þar sem aðstæður og þjálfari eru betri en hérna heima.

Hver eru þín ráð til ungra stúlkna sem vilja ná langt í fótbolta?

Ekki fara á æfingu bara til að fara á æfingu. Farðu á æfingu til að bæta þig, verða betri og helst að vera best á æfingu.

Hólmfríður var mín fyrsta kvenfyrirmynd í fótbolta

Nei, í rauninni ekki. Ég byrjaði árið 2000 að æfa. Þá var engin kvennaknattspyrna á Selfossi. Enginn meistaraflokkur, bara upp í 3. flokk. Þegar leið á, þegar ég var orðin 12 ára, þá var landsliðið að verða svolítið gott, farið að fara á EM. Þarna fékk ég mína fyrstu kvenfyrirmynd i fótbolta. Ég hélt mikið upp á Hólmfríði. Það var mínm fyrsta kvenfyrirmynd í bolta.

Gudmunda4

Fékkstu einhvern tímann að „heyra það“ fyrir að vera stelpa í fótbolta?

Já og nei. Ég var ótrúlega heppin með bekkjarfélaga. Þegar maður var yngri þá leyfðu þeir mér alveg að vera með í fótbolta. Af því maður var góður þá skipti engu máli hvort maður var stelpa eða strákur. Stundum fékk maður að heyra „afhverju ertu að spila eins og kelling“ en ég held að þeir hafi aldrei meint það, þeir meintu það kannski meira „ekki vera aumingi“.. það var svona niðrandi á kvenmenn að nota þetta orðalag.
Ég held að þetta sé bara óheppilegt orðalag og þeir hafi meint lítið með því því þeir vildu allvega alltaf vera með mér í liði.

„Mig langaði bara að vera strákur og fá svona flottan bikar“.

Varðandi bikarumræðuna þá fengu strákarnir flottari bikara en við. Það er búið að breyta því núna, allir bikararnir eru jafn stórir.

Þegar ég var 12 ára var ég valin besti leikmaður 5.flokks. Þá fékk ég pínulítinn bikar og vinur minn sem var líka 12 ára og var valinn besti leikmaður 5. flokks fékk miklu flottari og stærri bikar en ég. Maður tók eftir því. Leiðinlegt að enginn fullorðinn hafi tekið eftir því.

Það var alltaf ótrúlega erfitt að vera þarna og strákarnir voru með miklu stærri bikar.. mig langaði bara að vera strákur og fá svona flottann bikar. Núna er þetta öðruvísi og allir fá eins bikar.

Gudmunda5

„Maður tók eftir því að það var miklu betra að vera strákur“

Nú eru liðin 6 ár síðan að öllum bikurunum var breytt hér á Selfossi. En maður tók eftir því að það var miklu betra að vera strákur. Alltaf fleiri að horfa á strákana. Þeir fengu að fara á fleiri mót. Það er kannki líka þjálfarinn okkar, hann hefði getað farið á fleiri mót með okkur og svona.
Í dag, þar sem ég er að æfa, finn ég að það skiptir ekki máli hvort þú sért strákur eða stelpa. Allir þjálfarar hjá Selfossi eru sendir á KSÍ þjálfunarnámskeið.

Finnur þú mun á því hvernig tekið er karlalandsliðinu og kvennalandsliðinu?
Já, það er mikill munur. Ég held að það sýni sig núna. Það er tildæmis landliðsleikur í undankeppni hjá stelpunum og það er ekki jafn mikið fjallað um það eins og hjá strákunum sem voru að spila núna.

Við gerðum til dæmis jafntefli við heimsmeistara í vetur, Bandaríkin, og það hringdi ekki einn fjölmiðill í okkur og spurði út í þetta. Ef þetta hefði verið strákarnir hefði allt verið brjálað.

Ég held að fjölmiðlar séu aðal ástæðan að það sé ekki fjallað um þetta. Ef það er fjallað um þetta, þá koma áhorfendur.
Það hefur aldrei verið fullt á kvennalandliðsleik. Aldrei verið 9800 manns. Metið er 6000 manns. Einu sinni hefur verið þurft að opna aðra stúku, annars hefur þetta passað í venjulegu stúkuna.

Ég held að munurinn liggi líka í því að pabbar fari meira með strákana sína á leikinn, svona „strákasport“ að feðgar fari á leiki. Það vantar kannski í áhorfendur á kvennaleiki að pabbar og mömmur fari með stelpur og strákana og kvennaleiki.

Auðvitað vilja allir sjá Gylfa og þessa flottu stráka, það er kannski ekki jafn spennandi að sjá stelpurnar.

Gudmunda6

Hvað heldur þú að þurfi að gerast í samfélaginu til að uppræta mismuninn?
Ég held að stelpur ætti að standa saman. Það gæti hjálpað mikið ef þær myndu mæta á leiki. Ef þú ert til dæmis í handbolta, að mömmurnar fari með stelpurnar á leiki. Þá elst hún upp við að fara á leik og kannski myndi hún draga vinkonu sína með.
Til þess að við fáum áhorfendur á leik með okkur þá förum við til krakkanna og látum þau fá miða. Þau taka svo foreldra sína með og þá er það fljótt að tikka inn ef þú nærð krökkunum og foreldrunum.
Í dag eru mun fleiri kvenfyrirmyndir í fótbolta heldur en þegar ég byrjaði. Núna eru atvinnumenn bæði í handbolta, körfubolta og fótbolta. Það er alltaf að bætast við nýjar kvenfyrirmyndir. Stelpur og strákar í dag eru heppin að það er alltaf að bætast við af flottum kvenfyrirmyndum.

Þurfa fjölmiðlar að vera duglegri að sýna frá leikjum kvenna?

Algjörlega. Það er kannski minni eftirspurn að horfa á kvennaknattspyrnu í sjónvarpi. Ég meina, ég horfi á tennis ef það er í sjónvarpinu. Ég held að fólk myndi líka gera það, ef það er fótbolti í gangi og þér finnst fótbolti skemmtilegur, þá horfirðu á hann hvort sem það eru strákar eða stelpur að keppa.

Viðtalið tók: Sigrún Aagot Ottósdóttir

Gudmunda7