Ráðstefna um siðfræði Kants

Ráðstefna um siðfræði Immanuels Kants verður haldin dagana 8. og 9. október nk. Heiti ráðstefnunnar er „Rætur siðferðisins: um verklega heimspeki Immanuels Kants.“ Kennaradeild Háskólans á Akureyri stendur fyrir ráðstefnunni, en fyrirlesarar á koma víða að og eru sumir í hópi fremstu sérfræðinga í verkum Kants. Ráðstefnan verður haldin í stofu 14 í húsakynnum Háskólans í Þingvallastræti. Hún hefst kl. 9 árdegis þann 8. október og stendur til 17.30 þann dag. Daginn eftir hefst hún kl. 9 og henni lýkur kl. 12.30. Ráðstefnan fer öll fram á ensku fyrir utan upphafserindið.

Christine M. Korsgaard, prófessor í heimspeki við Háskólann í Harvard, flytur fyrirlestur sem hún nefnir „Að breyta af ástæðu“ og fjallar um hvers eðlis ástæður til breytni eru. Korsgaard er þekktust fyrir bók sína Rætur skuldbindinga (The Sources of Normativity) sem kom út árið 1996. Manfred Kuehn, prófessor í heimspeki við Boston University, flytur fyrirlestur um dygðakenningu Kants og tengsl hennar við dyggðakenningu Aristótelsesar. Kuehn gaf út árið 2001 ævisögu Kants, Kant: A Biography. Peter Niesen er kennari við Háskólann í Frankfurt flytur fyrirlestur um kenningu Kants um málfrelsi. Hann gaf út fyrr á þessu ári bók um málfrelsiskenningu Kants, Kants Theorie der Redefreiheit hjá Nomos forlaginu í Þýskalandi.

Mikael M. Karlsson, deildarforseti félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri, flytur fyrirlestur um skylduboð Kants, skilyrðislaus og skilorðsbundin. Logi Gunnarsson lektor við Háskólann í Liverpool fjallar um svokölluð þykk siðferðishugtök og tengsl þeirra við siðferðilega stöðu þeirra sem búa við alvarlega þroskahömlun og mannapa. Jón Ólafsson prófessor við Háskólann á Bifröst fjallar um þá kenningu Kants um að aldrei sér réttlætanlegt að ljúga og tengir hana við skoðanir Kants á ábyrgð. Guðmundur Heiðar Frímannsson forseti kennaradeildar Háskólans á Akureyri fjallar um vandkvæðin við að þýða Kant á íslensku. Erindi hans er það eina sem er flutt á íslensku. Vilhjálmur Árnason prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands gerir athugasemdir við kenningu Christine M. Korsgaard og Kristján Kristjánsson prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri gerir athugasemdir við kenningu Manfreds Kuehn. Heimasíða ráðstefnunnar er:

http://staff.unak.is/not/ghf/ghf/kantradstefna/kantdagskra.htm

Öllum er heimill aðgangur meðan húsrúm leyfir.