Línur, Lygar og Landsnet

RafmosturKarl Ingólfsson skrifar

Á fundi sem haldinn var í Hlíðarbæ sl. fimmtudagskvöld (4. sept) varð aðstoðarforstjóra Landsnets tíðrætt um ónóga flutningsgetu Byggðarlínunnar í Eyjafirði. Stöðva þurfti flutning á nokkrum MW af skerðanlegu afli til fyrirtækja á Akureyri sl. vor.  Aðstoðarforstjórinn gaf upp að afkastageta/stöðugleikamörk Byggðarlínunnar á milli Blöndu og Akureyrar væri aðeins 80MW og 130MW á milli Akureyrar og Kröflu.

Undirrituðum þótti undarlegt að flöskuhálsar mynduðust í raforkuflutningum á þessum árstíma þegar orkuframleiðsla og orkunotkun voru í lágmarki vegna bágrar vatnsstöðu í öllum helstu miðlunarlónum Landsvirkjunar. Var virkilega illmögulegt að flytja orku, sem ekki var framleidd vegna vatnsskorts?

Lítil framleiðslugeta vatnsaflsvirkjana í vor

Frá því í mars og fram yfir miðjan apríl var framleiðsla Blönduvirkjunar rúm 40 MW en var aukin í rúm 80MW um svipað leyti og lokað var á afhendingu skerðanlegrar orku á Akureyri 22. mars til 16. maí sl. Allan skerðingartímann fór álag á Rangárvallalínu 1, sem liggur til Akureyrar úr vestri, ekki yfir 52MW og var því tæpum 30MW undir hámarksafköstum.

Afköst Kröfluvirkjunar eru jöfn allt árið en framleiðsla Kárahnúkavirkjunar sveiflaðist á sama tíma frá 450MW til 520MW en er að jafnaði vel yfir 600MW við betri vatnsstöðu. Á sama tíma fór flutningur um Kröflulínu 1 sem tengir Akureyri við Kröfluvirkjun ekki yfir 50MW eða 80MW undir hámarksálagi. Laxárlínan skilaði á sama tíma uþb 10MW til Akureyrar.

Aflþörf í Eyjafirði er uþb 100MW og þar af fer fimmtungur til Akureyrar, tæpur fimmtungur til annarra notenda í Eyjafirði en megnið er notað hjá Becromal í Krossanesi.

Ljóst er að borð var fyrir báru um raforkuflutning í Eyjafirði í vor. Voru erfiðleikarnir við að flytja orkuna sem ekki var framleidd – annars staðar?

Hvaðan og hvert?

Landsnet sækir nú fast að skipulagsyfirvöldum um byggingu loftlínu um þveran Eyjafjörð og endilangan Öxnadal, með u.þ.b. 500MW flutningsgetu. Í því ljósi er vert að minna á að ekki hefur verið tekin ákvörðun um byggingu virkjana í Skagafirði. Engin nothæf gufa hefur fundist til að knýja fyrirhugaða 170MW stækkun Kröfluvirkjunar (í raunar vantar nú gufu til að knýja gömlu virkjunina á fullum afköstum). Engin ákvörðun liggur fyrir um virkjun Skjálfandafljóts. Virkjun Bjarnarflags er ekki möguleg á meðan mengunarmál eru óleyst og Landsvirkjun hyggst ekki virkja stærri virkjun en 100MW á Þeistareykjum fyrr en reynsla er fengin af langtíma afkastagetu jarðhitasvæðisins.

Það er því tæpast tímabært að reisa raflínur í Eyjafirði vegna virkjana sem ekki hafa verið byggðar, óvíst að verði byggðar eða hafa jafnvel alfarið reynst innistæðulausar eins og 170MW stækkun Kröfluvirkjunar. Ekki er vitað hvar eða hvort eða hvenær eigi að virkja né hvar, hvort eða hvenær eigi að nota orkuna úr óbyggðu virkjununum. Eigi að síður hefu Landsnet sett fram “Kerfisáætlun” sem í raun er ekki áætlun heldur einungi spádómar og vangaveltur sem á stofnanamáli kallast sviðsmyndir.

 

Grísir gjalda -gömul svín valda

Raunveruleg ástæða fyrir byggingu þessara stóru lína um Eyjafjörð snýst því ekki um meintan, tilbúinn eða áþreifanlegan orkuskort á Akureyri. Þessar línur eru hluti af fyrirhugðu kerfi afkastamikilla stóriðjulína sem tengja eiga 220KV rafkerfið á Fljótsdal við 220KV rafkerfið á SV-landi með nýrri línu um Sprengisand, auk þessa að tengja núverandi og fyrirhugaðar virkjanir á Norðurlandi við þetta 220KV kerfi. Með því móti fæst langþráður stöðugleiki í raforkukerfið en tíðar truflanir í rekstri málmbræðslanna valda skaðlegum spennu- og tíðnisveiflum hjá notendum sem tengjast Byggðarlínunni.

Almennir aðeins með 17%

Almennir raforkunotendur nota 17% raforkuframleiðslunnar og fer það hlutfall lækkandi. 30% tekna Landsnets koma frá almennum raforkunotendum og hefur fyrirtækið boðað 40% hækkun flutningsgjalda fram til 2025 til að mæta kostnaði við uppbyggingu þessara nýju 220KV loftlína.

Það virðist því vera að Eyfirðingar eigi að leggja lönd sín, útivistarsvæði og flugöryggi að veði undir risalínur með tuttugufalda aflþörf Akureyrar, til þess að losna við orkutruflanir sem eiga uppruna sinn hjá stóriðjuverum og til að miðla orku milli stórnotenda og stórvirkjana. Að auki eiga þeir að taka á sig mikla hækkun flutningsgjalda. Landsnet neitar alfarið að leggja þessar línur í jörð á viðkvæmustu hlutum leiðarinnar.

 

Eyfirðingar fá þó sitthvað fyrir sinn snúð. Nýju möstrin verða álíka há og breið og turnar Akureyrarkirkju. Sunnan flugvallar verða möstrin máluð í áberandi rauðum og hvítum litum og skreytt með rauðum aðvörunarljósum í toppinn.

Höfundur er baráttumaður fyrir jarðstrengjum

Pistillinn birtist í Akureyri vikublaði 11. september 2014