Baldvin sýnir í Ráðhúsinu

Fimmtudaginn 8. nóvember kl. 12:15 mun Baldvin Ringsted opna
fyrstu sýninguna í Gallerí Ráðhúsi á Akureyri. Á sýningunni verða
myndverk úr stáli sem unnin eru upp úr 3 Íslenskum þjóðlögum.

Baldvin er fæddur 1974, hann útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á
Akureyri 2004 og frá Glasgow Shool of Art 2007 með meistaragráðu í myndlist. Hann býr nú og starfar í Glasgow í Skotlandi.

Í verkum sínum vinnur Baldvin Ringsted m.a. út frá reynslu sinni sem tónlistarmaður.  Hann kannar tengslin á milli tilrauna í tónlist, menningarsögu og iðnaðarþróunar. Í verkunum verður oft fínleg breyting frá mynd yfir í hljóð og öfugt. Breytingin endurómar í vegvísum sem hann skapar og í þeim endurspeglast hugmyndin á bakvið hvert verk fyrir sig.

Á Listasafninu á Akureyri má um þessar mundir sjá innsetningar eftir Baldvin (Rhythm/Decay) og einnig í Center of Contemporary Arts (Feral Kingdom) í Glasgow.

Eins og nafnið gefur til kynna þá er sýningarsalurinn staðsettur í
Ráðhúsinu á Akureyri og er daglega dags fundarsalur bæjarstjórnar Akureyrar. Þetta er ekki því venjulegt gallerí, heldur vinnustaður sem fær með þessu sérstakt viðbótarhlutverk. Af þessum sökum verður heldur ekki um að ræða reglulega opnunartíma eins og í hefðbundnum galleríum.

Hugmyndin er að hver sýning standi í 6 mánuði í senn, en þarna fara saman list og stjórnmál eða stjórnmál og list í orðsins fyllstu
merkingu. Sýningarstjóri er Jóna Hlíf Halldórsdóttir.