Ljósmyndasýning vinnuskólanema

Í tilefni Árs jafnra tækifæra var efnt til ljósmyndasamkeppni meðal allra vinnuskóla á landinu. Þema keppninnar var fjölbreytileiki og voru nemendur hvattir til að fanga það í myndefnum sínum. Mikilvægur liður í Ári jafnra tækifæra er vitundarvakning í samfélaginu þar sem undirstrikað er að mismunun er ólíðandi í samfélaginu í hvers konar formi og að fjölbreytileiki mannlífsins er lykillinn að heilbrigðu og jákvæðu samfélagi. Sýning á úrvali mynda úr ljósmyndasamkeppninni verður opnuð í dag kl. 10.00 á Bókasafni Háskólans á Akureyri.

Áður hafði sýningin verið sett upp í Menntaskólanum á Akureyri og héðan fer hún á þemadaga nemenda í Brekkuskóla á Akureyri en skólarnir vinna saman að  verkefninu „Gegn mismunun á öllum skólastigum“ en það er hluti stærra verkefnis á vegum Háskólans á Akureyri, Félagsvísinda- og lagadeildar, Barnaheilla, Íslandsdeildar Save the Children, Menntaskólans á Akureyri og skóladeildar Akureyrarbæjar sem miðar að uppbyggingu móðurskóla í mannréttindum og lýðræði.

Eitt meginviðfangsefni verkefnisins er að vinna gegn mismunun á grundvelli, kyns, kynþáttar, þjóðernis, trúar eða lífsskoðunar, fötlunar eða kynhneigðar. Unnið er að því að skipuleggja og semja námsefni fyrir öll skólastig frá leikskóla, til háskóla. Verkefninu verður opinberlega hleypt af stokkum í september með ráðstefnu og hátíðarhöldum í tilefni Evrópuárs jafnra tækifæra fyrir alla.