HSÍ í dauðafæri á HM í Katar

katar2015Þá eru Íslendingar, eins og skrattinn úr sauðaleggnum, komnir inná HM í Katar. Á þessu áttu fæstir von og fokið virtist í flest skjól, en vegir alþjóða handknattleikssambandsins eru órannsakanlegir eins og dæmin sanna. Eflaust gleðjast flestir Íslendingar yfir því að fá sitt árlega stórmót í Janúar, en jafnframt held ég að væntingar landans verði í algjöru lágmarki að þessu sinni. Frammistaða liðsins og margra leikmanna hefur ekki verið uppá það besta að undanförnu. Meiðsli og aldur lykilmanna spilar þar stórt hlutverk og margir sem telja að nú sé orðið tímabært að stokka upp spilin og endurnýja í hópnum. Af þeim sökum tel ég þetta mót vera sannkallaða himnasendingu fyrir HSÍ og kærkomið tækifæri til að byggja upp í alvöru keppni.

Nú reynir á Aron Kristjánsson að sýna kjark og framsýni í stað þess að kreista síðustu dropana úr leikmönnum sem nú þegar hafa lagt allt sitt að mörkum og eru komnir vel yfir sitt besta. Við eigum þó reyndan kjarna leikmanna sem hægt er að byggja á. Guðjón Valur Sigurðsson, Aron Pálmarsson, Arnór Atlason og Alexander Petersson svo einhverjir séu nefndir.

Í markinu virðist Aron Rafn Eðvarðsson okkar framtíðarmaður, en Björgvin Páll Gústafsson hefur verið að gefa eftir að undanförnu. Þar þarf nauðsynlega að finna arftaka Björgvins Páls og fara með hann sem þriðja markmann til Katar og gefa tækifæri í einhverjum leikjum.

Vinstra hornið er sú staða sem minnstar áhyggjur þarf að hafa af. Guðjón Valur heimsklassa leikmaður sem enn á mikið eftir og yngri leikmaður farinn að narta í hælana á honum.

Hægra hornið ekki í eins góðum málum. Þórir Ólafsson að syngja sitt síðasta sem landsliðsmaður og svo sannarlega kominn tími til að gefa Arnóri Gunnarssyni almennilegt tækifæri í horninu. Oftast hafa útileikmenn á borð við Ásgeir Hallgrímsson og Alexander verið látnir leysa Þóri af, en nú ætti að láta reyna á Arnór fyrir alvöru.

Á línunni eru leikmenn sem eru komnir yfir sitt besta og tímabært að gefa öðrum tækifæri þó vissulega sé eitthvað eftir á tankinum hjá Róbert.

Sama má segja um stöðu leikstjórnandans, þar verður að finna ný svör. Snorri Steinn hefur átt glæstan feril, en hans tími er liðinn og komið að öðrum að fylla hans skarð.

Sem vinstri skytta hafa Aron Pálma og Arnór Atla verið í aðalhlutverkum og sem betur fer hafa þeir báðir getað leyst af á miðjunni. Engin panik í sjónmáli í þessari stöðu.

Hægri skyttustöðuna gæti farið að gusta um ef Alexander fer að gefa eftir sem sóknarmaður. Ásgeir Hallgríms góður varamaður, en Rúnar Kárason bjartasta vonin eins og er. Vonandi verður hann orðinn góður af meiðslum sínum í Janúar og þá ekkert því til fyrirstöðu að sleppa honum lausum og láta á hann reyna fyrir alvöru.

Það er ótalið hjarta varnarinnar, sem ekki alls fyrir löngu var skipað af Ingimundi, Sverri og Vigni Svavars. Nú er Ingimundur horfinn og bæði Sverrir og Vignir komnir á lokakaflann með landsliðinu. Fyrir 2 mánuðum hefði ég sagt að Sverrir hefði lítið til Katar að gera, en að undanförnu hefur hann risið upp með Akureyri af slíkum krafti að óhugsandi er annað en hann standi áfram vörnina í Janúar, væntanlega í sínu síðasta stórmóti. Hins vegar verða yngri leikmenn að fara að taka við keflinu í varnarleiknum og Katar gott tækifæri til þess. Þá finnst mér góð hugmynd ef HSÍ fengi Sverri sem varnarþjálfara við hlið Arons.

En Katar er tækifærið til að prófa eitthvað nýtt í bland við gamalt. Engu er að tapa og ekki búist við miklu. Mun skárra að sjá unga og reynslulitla leikmenn gera mistök, en gamlar stjörnur sem hafa lifað sitt fegursta í íþróttinni.

ÞLA