Ítarlegt viðtal við Ágúst Guðmundsson körfuboltaþjálfara

7flokkurKK_00046Ágúst Herbert Guðmundsson er einn þekktasti körfuboltaþálfari sem Akureyringar eiga en hann hefur þrátt fyrir ungan aldur marga fjöruna sopið. Í áratugi hefur hann unnið fjölmarga titila með yngri flokka Þórs í körfubolta. Nýverið kom nýjasti titillinn í hús en þá urðu strákarnir í 8. flokki Íslandsmeistarar en liðið hafði mikla yfirburði í úrslitakeppni Íslandsmótsins í vetur. Þessir drengir höfðu tvö undanfarin tímabil endað í öðru og þriðja sæti en í ár lyftu þeir bikarnum eftir að hafa unnið  KR, Njarðvík, Hauka og Stjörnuna, sem urðu Íslandsmeistarar síðasta árs. Titillinn í ár er kærkomin en heil sautján ár eru síðan síðasti titillinn kom í hús hjá Gústa.

Ágúst er einni ein af aðalsprautunum í starfi körfuknattleiksdeildar Þórs en þar eru menn stórhuga og stefna hátt og ber ráðning Benedikst Guðmundssonar sem þjálara beggja meistaraflokkar glöggt vitni um það.

Akureyri.net settist niður með Ágústi yfir kaffibolla og tekið var spjall um lífið í körfuboltanum. Gústi hefur nefnilega frá mörgu að segja því hann hefur ekki einvörðungu þjálfað í yngri flokkum heldur stýrði hann um árabil karlaliði Þórs og fór m.a. með liðið í úrslitakeppni úrvalsdeildar.

Fyrsta spurningin: Af hverju körfubolti?

Gústi: Ætli það sé ekki svipað og með marga aðra, skólabróðir sem dró mig á fyrstu æfinguna.

Hvar var þessi fyrsta æfing?

Gústi: Hún var í Hafnarfirði í kringum 1979-1980 með Haukum. Svo flyt ég hingað til Akureyrar 1982 og þá fer ég á fullt í körfuna með Þór.

Hvenær byrjaðir þú að þjálfa?

Gústi:  Ætli það hafi ekki verið 1993 eða 94 þá er ég í kringum 25 ára aldurinn.  Hafði þó reyndar gripið örlítið inn í þjálfun við afleysingar. Maður var alltaf tengdur starfinu á einn eða annan hátt t.d. við fjáraflanir og þ.h.  til að  létta undir. En þarna fannst mér komið tækifæri á að prófa.

Hvaða flokkar voru það?

Gústi: Þá tók ég við liði þar sem drengir fæddir 1980, frekar fjölmennur hópur sem voru kröftugir og baldnir og voru í neðsta riðli landsins þá að mig minnir  D-riðli.

Bikarmeistarar Þórs í unglingaflokki 1999

Bikarmeistarar Þórs í unglingaflokki 1999

Þú þjálfaðir þessa stráka eitthvað áfram?

Gústi: Já, ég þjálfaði þá í nokkur ár og eftir þriggja ára samvinnu náðum við titli, Íslandsmeistaratitli.

Hvað varð til þess að þú fórst út í þjálfun?

Gústi:  Það var þannig að ég var einhvern tímann á sjó og þar var einn félagi minn  Þórir Óttarsson sem þá var formaður unglingaráðs. Hann spurði  mig hvort ég væri ekki til í að þjálfa. Ég vildi ekki svara honum strax en fór svo að pæla og jú ég vildi gera hlutina almennilega og ég sló til.

Áttir þú þér fyrirmynd sem þjálfara?

Gústi: Nei ekki beina, en þó kemur upp í hugann heiðursfélagi Þórs, Einar Gunnar Bollason. Maður man eftir honum í þjálfarastólnum ekki síst hjá  landsliðinu ásamt Gunnari Þorvarðarsyni  svo ef ég á að nefna Íslenskan þjálfara að þá er það Einar Bollason, skemmtilegur karakter og mikill Þórsari. Ef ég á að velja einhvern erlendan þá hafði ég sérstaklega gaman af því sem Ettore Messina(aðstoðarþjálfari San Antonio) hafði uppá að bjóða. Ég hef þó hitt marga góða erlenda þjálfara og stærsta nafnið er sá  sem þjálfaði sterkasta lið allra tíma „Draumaliðið“ svokallaða frá Ólympiuleikunum 1992, Chuck Daly. Ég sat með honum á námskeiði í þrjá daga í Valencia á Spáni. Ég á mynd af okkur saman sem er skemmtileg minning.  Svo hef ég setið námskeið hjá Tex Winter sem bjó til hina frægu sókn sem Chicago og Lakers notuðu um árabil og unnu fjölmarga NBA titla út á.  Ég fékk að halda á hringnum hans, einum af mörgum en slíka hringa eignast þessir snillingar þegar þeir vinna NBA titla. Þetta var mikil  upplifun fyrir mig á sínum tíma. Ég hef svo hitt nokkuð marga sem tengjast NBA og öðrum góðum liðum.

Það hefur verið hvatning fyrir þig að hitta þessa höfðingja?

Gústi: Já, ég var mjög duglegur að sækja öll námskeið bæði hér heima og erlendis.  Þetta eru hlutir sem skipta miklu máli. Í dag er miklu auðveldara að ná sér í þekkingu því  internetið er til staðar.  En á sínum tíma var maður að panta sér bækur til að ná í þekkinguna og svo fara á námskeið. Þetta skiptir máli.

Þannig að það skiptir máli í því að gera sig að hæfari þjálfara að sækja menntun?

Gústi: Já, það er engin spurning þú verður að endurnýja þig, þú hefur hugmyndir og það er eitthvað handbragð sem þú hefur og mótar sjálfur. En ef þú ert ekki á tánum við að ná í það nýjasta og uppfærir þig þá kemur leiði hjá leikmönnum og þú nærð ekki árangri. Það eru breytingar í þessu eins og örðu.

En sem leikmann hver var þín fyrirmynd þar?

Gústi: Já, þeir voru margir hér heima á sínum tíma. Samferðamenn mínir á sínum tíma, margir góðir leikmenn sem enn eru góðir kunningjar mínir, ég held ég geri ekki uppá milli þeirra. Við Þórsarar áttum líka marga góða en ef ég á að velja einhverja Þórsara og drengskaparmenn þá myndi ég segja að Óðinn Ásgeirsson og Konráð Óskarsson væru okkar sterkustu leikmenn og félagar.

Nú hefur þú einnig þjálfað meistaraflokk, hvort er nú skemmtilegra að þjálfa mfl. eða yngri flokka?

Gústi: Ég get heldur ekki gert uppá milli þarna  Í grunninn er þetta mjög svipað en þó ólíkt.  Nálgunin er svo ólík að mörgu leiti en íþróttin er sú sama.  Það er hægt að kenna það sama en fara ólíka leið að því.  Það er meiri nánd við leikmenn í yngri flokkum  og það er vandmeðfarnara hvernig þú býrð til leikmennina. Hitt er orðið svona meira að koma einhverjum línum áleiðis en það er búið að þroska leikmennina. Ég myndi ekki gera uppá milli hvort sé skemmtilegra. Nei, ég geri það ekki.

Íslandsmeistarar 8. flokks 2014-2015

Íslandsmeistarar 8. flokks 2014-2015

Þú hefur unnið bæði Íslandsmeistaratitla í 1. og 2.  deild yngri flokka sem og gert drengjaflokk að bikarmeisturum en heil sautján ár liðu frá síðasta Íslandsmeistaratitli til þess nýjasta. Var þetta erfið bið eða er ástríðan fyrir íþróttinni enn næg til að halda þér við efnið?

Gústi: Biðin var ekki erfið því ég hætti um tíma afskiptum að þjálfun. Ég var búin að ná ágætis árangri og svo fór ég að róa á önnur mið, fór að reka eigin fyrirtæki. Svo kviknaði neistinn aftur og það tengdist einfaldlega börnunum mínum –  var farinn að fylgja þeim í íþróttir. Þannig kom það til að ég byrjaði aftur. Þá spurði ég mig ,,afhverju ekki“ að fara aftur í þetta.  Ég fann ekki neistann alveg strax en svo allt í einu datt ég í gírinn og fór á fullt.

Margir vilja líkja þessum hópi þ.e. 8. flokki sem þú ert með í höndunum núna saman við 1980 árganginn en sá árgangur skilaði mörgum góðum íþróttamönnum upp í meistaraflokka.  Er þetta sambærilegt?

Gústi: Já, að mörgu leiti. En það sem 8. Flokkurinn hefur umfram er  að þeir byrja yngri.  Aðal einkenni beggja þessara hópa  er mikil breidd. Ég hef alltaf reynt að bíða eftir þeim sem taka hægara á móti og ekki gefist upp á að kenna öllum það sama auk þess að sýna þolinmæði. Ég hef alltaf haft þá trú að það skilii meiri breidd í leikmannahópi og niðurstaðan í dag er sú að það er mikil breidd í yngri hópnum. En þetta eru svipaðir hópar myndi ég segja.

Er eitthvað eitt atriði í þjálfun sem þú vilt meina að sé mikilvægara en önnur?

Gústi: Ég veit það ekki. Ég legg mikið upp úr aga en er mjög meðvitaður um að það verður að vera gaman. Í yngriflokkaþjálfun reyni ég að fara í eitthvað annað en körfubolta, reynum að „djamma“ saman eins og við segjum strákarnir ég held að það bindi hópinn saman. Þannig komast þeir yfir þann mikla aga sem ég er með og þá fer að nást árangur. Í framhaldinu fer að verða miklu meira gaman í körfubolta samhliða auknum árangri. Þannig spilast þetta í mínum höndum.

Er almennt vel haldið utan um ungviðið í íþróttum á Akureyri?

Gústi:  Já,  það tel ég. Við erum með mikið framboð af íþróttum á Akureyri  og ég held að heilt yfir sé vel staðið að málum, ég er ekki í vafa um það.

Nýverið var Benedikt Guðmundsson ráðinn þjálfari meistaraflokka hjá Þór. Í ljósi þess að Benedikt er einn fremsti þjálfari landsins má búast við að með tilkomu hans muni körfuboltinn á Akureyri stíga næsta skref uppá við?

Gústi:  Já,  það er ekki nokkur vafi. Ég bara leyfi mér að fullyrða það að Benedikt er einn sá besti ef ekki sá besti sem við höfum átt í gegnum árin. Hann hefur gríðarlega reynslu og hefur undantekningarlaust alltaf náð betri árangri en honum hefur verið spáð. Að fá hann hingað verða ákveðin kaflaskil hjá okkur. Við erum að taka stórt skref í þá átt að fara með meistaraflokkana báða lengra  en nokkru sinni hefur verið. Þannig að það verður spennandi að fylgjast með hvernig Benedikt spilar úr sínum málum hér.

IMG_5590Mun þessi ráðning hafa áhrif á krakka í yngri flokkum?

Gústi: Já,  ekki síst ef fer að ganga vel í meistaraflokkum þá er komin mikil og góð fyrirmynd þar. En hann mun einnig koma að afreksþjálfun ákveðinna krakka auk þess sem hann verður með sumaræfingar allra flokka. Og svo er stefnt á að hér verði akademía sem hann mun stýra.

Er von til þess að Þór spili í efstu deild áður en langt  um líður?

Gústi:  Já, ég vona að það verði í báðum flokkum karla og kvenna. Ef ekki strax eftir ár þá innan tveggja ára.

Bjartsýnn á framhaldið?

Gústi: Já, mjög.  Ég held að það sé meiri meðbyr með körfuboltanum á Akureyri núna en nokkru sinni, a.m.k. í minni tíð. Ég held að við séum að gera þetta nokkuð rétt.  Við höfum verið að byggja upp yngri flokkana undan farin 5-6 ár og ráðning Benedikts er rökrétt framhald af þeirri uppbyggingu og við erum komin með einn efnilegasta miðherja landsins Tryggva Hlinason, sem er 216 cm hár mældur í skóm, eins og gert er í körfubolta. Þannig að já –  það er mjög bjart framundan. En það þarf að halda vel á öllum málum svo hlutirnir gangi upp.

Mun Gústi halda áfram að þjálfa?

Gústi: Já, eitthvað áfram.  Á meðan ég hef gaman af þessu þá geri ég það. Þetta er áhugamál númer eitt, tvö og þrjú hjá mér þ.e. körfubolti og þjálfun þá með. Ég mun leggja mitt að mörkum til þess að við getum eignast fleiri körfuboltamenn hérna og þá kannski aðallega að Íþróttafélaginu Þór gangi vel.

Þannig að þú ert þá ekki orðin saddur?

Gústi:  nei ekki í dag, nei, nei.

Texti: Þorgils Sævarsson

Myndir: Palli Jóh