Akureyrarflugvöllur ekki á dagskrá

Bæjarstjórn Akureyrar fjallaði um samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á fundi sínum þriðjudaginn 16. október og sendi frá sér svohljóðandi ályktun í kjölfarið

„Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að í fimm ára samgönguáætlun sé ekki gert ráð fyrir fjármögnun uppbyggingar Akureyrarflugvallar. Það samræmist hvorki byggðastefnu stjórnvalda né umræðu um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Þá hvetur bæjarstjórn Akureyrar ríkisstjórnina til að ljúka við löngu tímabæra eigendastefnu Isavia, ekki síðar en um áramótin 2018/2019.“

Umræðurnar um fimm og fimmtán ára samgönguáætlanirnar á bæjastjórnarfundinum voru fjörugar en bæjarfulltrúar voru almennt sammála um að óásættanlegt væri að ný flugstöð á Akureyri væri ekki á dagskrá fyrr en eftir 10 ár í fyrsta lagi, hjá ríkisstjórn sem væri marg búin að lýsa yfir að dreifa þurfi ferðamönnum um landið allt til að efla ferðaþjónustuna og skapa tækifæri til atvinnuuppbyggingar tengdri ferðaþjónustu víðar en á suðvesturhorninu.