Ivan Mendez og Stefán Elí gefa út poppsprengju.

Félagarnir tveir voru að gefa út brakandi ferskt lag sem ber nafnið ,,Say You Love Me Now”. Lagið sömdu þeir í sameiningu og unnu einnig saman við að útsetja það.

,,Þetta hófst allt þegar Ivan sýndi mér stutta hljóðupptöku í símanum sínum af sér að spila á skemmdan skemmtara og syngja viðlagið. Sama dag fór ég heim með þennann stutta bút algerlega á heilanum og setti þá upp beinagrindina af laginu í flýti. Ég tók svo sjálfur upp versin mín og sendi fyrsta demo á hann sama kvöld”.

Eftir þetta tóku þeir upp restina af söngnum í sameiningu og svo sá Haukur Pálmason um að hljóðblanda og hljómjafna lagið.

,,Ég var búinn að vera með þetta demo í símanum mínum í nokkra mánuði áður en ég spilaði það fyrir Stefán. Ég vissi í rauninni ekkert hvað ég ætti að gera við hugmynda en þetta kom allt heim og saman þegar Stefán fór að hnoða þetta.” segir Ivan Mendez.

Stefán og Ivan hafa báðir verið að gefa út og vinna á fullu í efni í sitthvoru lagi en þetta er fyrsta lagið sem þeir semja í sameiningu. Ivan gaf út lagið ,,Light Of New Day” með hljómsveitinni sinni Gringlo á dögunum og einning ábreiðu af laginu ,,Wild World” eftir Cat Stevens en Stefán Elí sendi frá sér lagið ,,Lost Myself” fyrir tveimur vikum.

Búast má við meira efni frá þeim félögum á næstunni, bæði sameiginlegt og í sitthvoru lagi.

Stefán stefnir á að gefa út plötu í fullri lengd með vorinu og Ivan er þessa dagana bæði að vinna í EP plötu með Gringlo, sem kemur út í vor, og einning í sóló plötu sem er væntanleg á árinu.

Hér er linkur fyrir glugga sem spilar lagið https://open.spotify.com/embed/album/7dkRx9FJs2fDnzRdZQ39VD