Stapi er með upplagt tækifæri í höndum sér

Stapi Lífeyrissjóður hefur verið í fréttum síðustu daga fyrir að hafa keypt heila blokk við Undirhlíð á Akureyri. Framkvæmdarstjóri Stapa segir að lífeyrissjóður eigi ekki að standa í skammtímafjárfestingum á íbúðarhúsnæði og þar er ég sammála honum. Hinsvegar vil ég hvetja Stapa til að stofna leigufélag og hugsa þessa fjárfestingu til langs tíma með það að  markmiði að geta boðið fólki íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði til langs tíma með leigukerfi eins og stefnt var að áður en skipt var um stjórnendur. En ætlunin var að leigja út íbúðirnar samkvæmt framkvæmdarstjóra Stapa í fréttum RÚV.

Leigumarkaðurinn á Akureyri hefur vaxið gríðarlega bæði í fjölda leigjenda og líka í verði. Algengt er að heyra að þriggja herbergja íbúð sé að leigjast á um 200 þúsund kr. á mánuði. Leigusalar hafa líka geta hækkað verð sitt því margir sækja um að leigja hverja íbúð og er því eftirspurnin margföld á við framboðið.

Ef Stapi myndi ákveða að stofna leigufélag um reksturinn þá njóta leigjendur þess að vera með öflugt félag á bakvið sig sem setur sér hófsama ávöxtunarkröfu á fjárfestinguna. Það skilar sér í lægra leiguverði sem getur haft áhrif á leigumarkaðinn á svæðinu. Hagstæðara leiguverð á svæðinu væri ein besta kjarabót sem sjóðsfélagar Stapa gætu fengið án þess þó að Stapi sé að setja fjármuni í einhverja áhættu. En þá stendur eftir spurningin – Fyrir hverja vinnur Stapi? Ég vona að Stapi taki slaginn fyrir sjóðsfélaga sína og hafi þannig áhrif á kjör margra sjóðsfélaga.

Jóhann Jónsson

Formaður Samfylkingarinnar á Akureyri