Sýn Íslendinga á stéttakerfið og eigin stéttarstöðu

Dr. Guðmundur Ævar Oddsson

Félagsvísindatorg: Tvær þjóðir í einu landi? Sýn Íslendinga á stéttakerfið og eigin stéttarstöðu

Miðvikudaginn 15. nóvember kl. 12.00-12.50 mun Dr. Guðmundur Oddsson, félagsfræðingur, fjalla um sýn Íslendinga á stéttakerfið og eigin stéttarstöðu og eiga samtal við áheyrendur um efnið.

Ör hnatt- og nýfrjálshyggjuvæðing íslensks þjóðfélags frá miðjum tíunda áratugnum og fram að hruni jók vitund Íslendinga um stéttaskiptingu. Þá eru Íslendingar meðvitaðri um eigin stéttarstöðu í kjölfar hrunsins en eldri rannsóknir gefa til kynna. Guðmundur Oddsson mun í erindi sínu á félagsvísindatorgi reifa niðurstöður rannsókna á hugmyndum Íslendinga um stéttaskiptingu og eigin stéttarstöðu. Guðmundur mun fjalla sérstaklega um rannsókn sem er á lokametrunum og ber yfirskriftina „Hverjir sjá sig í íslensku millistéttinni? Áhrifaþættir mitt í efnahagskreppu“. Gögnin koma úr alþjóðlegu viðhorfskönnuninni International Social Survey Programme, sem lögð var fyrir á tímabilinu 2009 til 2010. Um er að ræða fyrstu alþjóðlegu spurningalistakönnunina þar sem spurning um huglæga stéttarstöðu er lögð fyrir íslenskt úrtak.

Guðmundur er lektor við félagsvísinda- og lagadeild Háskólans á Akureyri. Hann lauk doktorsprófi í félagsfræði frá Missouri-háskóla 2014 og kenndi við félagsfræðideild háskólans samhliða námi. Guðmundur var lektor við Félags- og mannfræðideild Norður Michigan-háskóla frá 2014 til 2017. Í haust hóf Guðmundur störf sem lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri. Rannsóknir Guðmundar hverfast um félagslegt taumhald, frávik og ójöfnuð, sér í lagi hugmyndir fólks um stéttaskiptingu.

Félagsvísindatorgið verður í stofu M101 og er opið almenningi án endurgjalds.