Gefur útikörfuboltavöllum á Akureyri falleinkunn

Pétur Ingi Kolbeins er mikill áhugamaður um körfubolta skrifaði athyglisverðan pistil á facebook þar sem hann gerði úttekt á ástandi körfuboltavalla á Akureyri þ.e. útivöllum. Samkvæmt hans úttekt er víða pottur brotinn og sannarlega þörf á að taka þar til hendinni.

Færsla Péturs Inga

Svona í framhaldi af þessum pósti mínum í gær um Naustaskólavöllinn þá ætla ég að dúndra inn þessum punktum sem ég skrifaði niður 26.júlí í sumar. Þá var ég einmitt í miklum hugleiðingum um ástand á körfuboltavöllum í bænum. Það er gott að heyra að nú eigi að gera smá skurk í þessum málum. Mér fannst einmitt gaman af því þetta kvöld í sumar þegar ég kíkti á alla vellina að það var verið að spila körfu á 4 af 8 völlum. Þannig að það er greinilega áhugi á að fara útá völl og spila.

————

Topp 8 götukörfuboltavellir á Akureyri

Ég veit fátt skemmtilegra en að skella mér út á völl og henda upp nokkrum skotum. Því miður hefur maður verið alltof latur við það undanfarin ár. En á árum áður var ég algjör goðsögn á götukörfuboltavellinum. Á Svalbarðseyri að minnsta kosti. Þar hafa nú reyndar fæðst nokkrar helstu körfuboltahetjur okkar þórsara.

Þetta sumarið hef ég farið á alla velli bæjarins þar sem ég er að reyna kveikja áhuga hjá strákunum mínum og var ég eiginlega búinn að gleyma hversu ótrúlega lélegir sumir vellirnir voru. Það eru betri körfur og vellir við sum heimahús í bænum. 
Sérstaklega er undirlag slæmt og staðsetning á körfum oft furðuleg. Ég gerði smá úttekt á öllum körfuboltavöllunum og raða þeim upp í röð. Byrja á þeim slakasta og enda svo á þeim besta.

Glerárskóli 0,5/5


Mest svekkjandi völlurinn í bænum. Bak við eitt mest legendery körfuboltahús landsins. Það hafa nú margar hetjurnar koðnað niður þegar þeir hafa mætt í Glerárskólann. Með Þórssvæðið hinum megin við girðinguna hefði maður haldið að hér væri geggjaður völlur. Nei hér eru bara tvær lágar körfur með keðjum, önnur bogin niður. Malbikið ekki í neinu standi til að drippla körfubolta. Mekka körfuboltans innan dyra, martröð körfuboltaspilarans utan dyra.

Oddeyrarskóli 1/5


Ef ég væri nýr hér í bænum þá myndi ég tippa á að héðan kæmu hörðust körfuboltamenn bæjarins. Það er nú ekki hægt að neita því að hér hafa fæðst nokkrir af hörðustu spilurum okkar Akureyringa. En það er ekki útivellinum að þakka. Völlurinn er nánast spegilmynd af Glerárskóla vellinum, 2 körfur með keðjum, en skorar hærra útaf því að Eyrin er svo glerhörð. Svo eru líka línur á vellinum sem ekki er að finna á öllum völlum.

Íþróttahöllin 2/5


Fjórar körfur á bílastæði. Já bílastæði. Það er ekki vænlegur staður fyrir körfuboltavöll. En bílastæðið er þó nokkuð slétt þótt að annað hvert skot skoppi af grasinu undir körfunni. Þessi völlur var betri en mig minnti. Greinilega búið að lappa aðeins uppá körfurnar. Hér eru keðjur, reyndar eins og á flestum völlum. Þær voru algjörlega málið 1992 þegar White men can’t jump kom út. Alveg off í dag.

Lundarskóli 2,5/5


Ég man nú bara ekki eftir því að körfuboltamaður hafi komið úr Lundarskóla. Hér er ein besta staka karfa bæjarins. Ef einhver er í körfubolta í Lundarskóla þá er hann að spila á þessa körfu. Hef aldrei séð neinn nota hinar körfurnar. Þessi karfa er alveg upp við skólann, svæðið stúkað af með hárri girðingu. Hér hef ég spilað marga af mínum bestu einn á einn leiki. 4 aðrar körfur eru dreifðar útum allt plan. Malbikið þar er ekki gott.

Brekkuskóli 2,5/5


Var eiginlega búinn að gleyma því að það væru körfur þarna. Spilaði stundum þarna í gamla daga áður en skólanum var breytt. Norðan við skólann eru þrjár körfur sem fínt er að skjóta á. Eina vandamálið er grasið/drullan sem er eiginlega beint undir körfunni. Undirlagið er mjög slétt og fínt. Svo er ágætis gettó vibe þarna, girðing aftan við körfurnar, tröppur til að sitja í og miðbærinn í bakgrunninum.

Naustaskóli 3/5


Ég er kannski eilítið hlutdrægur að hafa Naustavöllinn svona hátt. Hverfis völlurinn minn og ég fer oft þangað. Körfurnar þar eru einungis tvær. Þær eru hins vegar bestu körfurnar í bænum. Stór spjöld og hringirnir mjúkir. Malbikið er gott en hallar örlítið niður. Hvort sem þú hittir eða ekki þá á boltinn það til að skoppa niður brekkuna. Ég held að þetta sé líka frekar vinsæll völlur, oft fullt af krökkum að raða niður skotum þarna.

Giljaskóli 3/5


Það er eitthvað sem heillar mig við þennan völl. Hann var rosalega flottur þegar hann var nýr. Fór oft þarna þegar ég átti heima í Snægilinu. Alltaf þegar ég fer þangað sé ég fyrir mér áhorfendapalla eins og í bíómyndunum. Þeir myndu sóma sér vel þarna við völlinn. Það eru líka allavega 10 körfur í kringum allan skólann. Misháar þannig að allir finna sér körfu við hæfi. Stundum reyndar fundist hærri körfurnar vera örfáum cm of háar. Stundum eru það smáatriðin sem pirra mann.

Síðuskóli 3,5/5

Núna erum við að tala um Mekka götukörfuboltans á Akureyri. Körfurnar eru 8 talsins og þær eru líka á móti hver annarri ólíkt hinum völlum bæjarins. Það er farið að sjá mikið á bæði malbiki og körfum. Það er meira segja eins og það hafi komið risaeðla og nartað hluta af einu spjaldinu. Það er bara svo mikil sál og svægi í þessum velli. Nálægin við Gettó blokkirnar í Keilusíðunni gefur ákveðinn sjarma. Það er einhver New York, Harlem fílingur þarna. Margir rosalegir götukörfuboltaleikir farið fram á þessum velli. Hann tekur klárlega toppsætið. En það er algjörlega kominn tími á yfirhalningu þarna.

Allar myndirnar eru Péturs Inga