Þreföldun á sölu áskriftarkorta Menningarfélags Akureyrar

Menningarfélag Akureyrar kynnti á dögunum viðburðaárið 2017-2018. Viðbrögð við fjörugum og  nærandi viðburðarvetri hafa verið frábær og sala áskriftarkorta, Veislukorti Menningarfélagsins, hefur þrefaldast frá síðasta ári.  Aðspurð sagði Anna Heba Hreiðarsdóttir verkefnastjóri miðasölu MAk: „Það er áberandi hversu ánægt fólk er með fjölbreytni viðburða og hversu hagstætt veislukortið er. Hér er því fjör alla daga þegar við opnum”.

Sölu veislukortanna lýkur 30. september. Áhugasamir eru því hvattir til að kynna sér veisluborð Menningarfélagsins og úrvalið sem sjá má í bæklingnum eða á heimasíðunni mak.is. Þar er hægt að velja sér girnilega viðburði á veislukortið allan sólarhringinn eða á opnunartíma miðasölu í Hofi. Framundan í september eru tveir stórir viðburðir: LA perlur í Hofi, þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hyllir hið 100 ára gamla Leikfélag og  frumsýning í Samkomuhúsinu á verkinu Kvenfólk, sem er fyrsta uppfærsla Leikfélags Akureyrar á þessu starfsári.  Framundan er drekkhlaðið veisluborð af fjölbreyttum, fjörugum og nærandi viðburðum út viðburðarárið hjá Menningarfélagi Akureyrar.