Alþjóðlegi sjálfsvígsforvarnardagurinn 10.september

Eymundur L. Eymundsson skrifar

Á ári hverju falla um 40 manns fyrir eigin hendi. Milli 500 til 600 manns til viðbótar gera til þess tilraun. Geðhjálp og Rauði Krossinn hófu átakið Útmeða fyrir tveimur árum. Átakið beindist að sjálfsskaða og sjálfsvígum ungra karlmanna en sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára. Ljóst er að það vantar meiri peninga í forvarnir, líkt og umferðarforvarnir sem bjargað hafa mannslífum. Geðhjálp og Rauði krossinn eiga þakkir skyldar fyrir sitt framtak. Öll umræða er af hinu góða. Fólk verður að geta talað um sína vanlíðan og vita hvert hægt er að leita.

Pieta sjálfsvígsforvarnarsamtökin voru stofnuð fyrir 11 árum á Írlandi. Í Reykjavík var haldin Pieta ganga vorið 2016 en hér á Akureyri var farin fyrsta gangan í vor. Grófin geðverndarmiðstöð tók þátt í undirbúningi ásamt aðstandendum og fleiru góðu fólki. Stemmingin var falleg og góð og þakkarvert að geta minnst ástvina á táknrænan hátt um leið og vakið er athygli á sjálfsvígsforvarnarsamtökunum. Um 100 manns gengu gegn sjálfsvígum og inn í morguninn en yfirskrift göngunnar var „Úr myrkrinu í ljósið“. Gengið var á fleiri stöðum á landsbyggðinni en minni sveitarfélög og þöggunin þar vill gjarnan gleymast í umræðunni.

Pieta Ísland samanstendur af fulltrúum frá Hugarafli, Lifa-landssamtökum aðstandenda eftir sjálfsvíg og fleiri einstaklingum. Samtökin hafa í hyggju að stofna Pieta hús til mæta þeirri miklu þörf í samfélaginu fyrir úrræði fyrir fólk í sjálfsvígshættu og með sjálfsskaða. Í Pieta House á Írlandi vinnur fagfólk sem fengið hefur sérstaka þjálfun í meðhöndlun fólks í sjálfsvígshættu. Aðferðin hefur gefið góðan árangur. Árlega leita þúsundir Íra sér hjálpar hjá Pieta House, sem eru víðs vegar um landið. Sjálfsvígstilfellum hefur fækkað töluvert í kjölfarið.

Sjálfsvígshugsanir mínar

Ég held að við getum unnið betur með tilfinningar og sjálfsmynd í gegnum lífsleikni í skólum.Um mikilvægi þess að birgja ekki vanlíðan inni og að hægt sé að tala án dómhörku. Með því að hjálpa börnum og ungmennum að takast á við erfiðleika og vinna með virðingu að leiðarljósi getum við komist hjá alvarlegum afleiðingum. Það felast einnig forvarnir í því að fá fagfólk í skólana til að vinna með sjálfsmyndina.

Frá tólf ára aldri herjuðu sjálfsvígshugsanir á mig daglega. Ég er þakklátur fyrir að hafa lifað af. Mínar sjálfsvígshugsanir voru vegna geðraskana; kvíða, félagsfælni og þunglyndi sem svo mörg börn glíma við. Þessi börn þurfa hjálp strax. Fyrir mig var mikil uppgötvun að sjá að geðraskanir höfðu stjórnað mínum vanmætti og að það væri von í vonleysinu. Frá 2005 hef ég nýtt mér hjálp og öðlast líf í stað þess að vera með sjálfsvígshugsanir flest alla daga, nota vímuefni eða einangrast félagslega.

Hvert mannslíf skiptir máli. Það er mikilvægt að stjórnvöld og samfélagið standi betur saman að bættum forvörnum fyrir lífið!

Eymundur L.Eymundsson félagsliði, ráðgjafi og stjórnarmeðlimur í Grófinni geðverndarmiðstöð á Akureyri