Piparjúnkan og þjófurinn, ópera frumsýnd á Akureyri

Óperan Piparjúnkan og þjófurinn verður frumsýnd á Akureyrarvöku næstu helgi. Hópurinn sem ræðst í verkefnið samanstendur af menntuðum söngvurum, óperuþjálfa og leikstjóra.

Piparjúnkan og þjófurinn er stórskemmtileg gamanópera í einum þætti eftir tónskáldið Gian Carlo Menotti. Verkið fjallar um slúður og leyndarmál í litlum hljóðlátum bæ. Hin miðaldra piparjúnka, Miss Todd, eyðir flestum dögum sínum í það að prjóna og slúðra með annarri piparjúnku, Miss Pinkerton. Einn daginn snýst heimur þeirra á hvolf þegar að flakkari knýr dyra hjá Miss Todd. Hún og þerna hennar, Laetitia, verða báðar bálskotnar í myndarlega förumanninum og vilja endilega veita honum húsaskjól jafnvel þó þær komist svo að því að hann gæti mögulega verið strokufangi. En þær grunar aldrei hversu langt þær væru til í að ganga fyrir smá tilbreytingu í smábæjarlífið.

Hugmyndin að uppsetningunni varð til fyrir tveimur árum síðan þegar Elfa og Jenný fundu út að þær væru loksins að fara að búa í sama landi, í sama landshluta, í fyrsta sinn síðan þær urðu vinkonur. Þeim fannst því tilvalið að vinna saman og fóru í það að finna óperu til að setja upp og fólk til að vinna með. Piparjúnkan og þjófurinn varð fyrir valinu vegna þess að hún er létt og skemmtileg og einnig vegna þess hve vel Íslendingar kannast við smábæjarlífið. Þær ákváðu að vinna með tónlistarfólki sem væri frá norðurlandi eða búsett þar, en vildu þó vinna með Matthildi þar sem hún væri eini íslenski óperuþjálfinn, en hún á þó rætur að rekja norður þar sem hún er ættuð úr Svarfaðardalnum.

Í maí 2017 hittist hópurinn svo loks og hóf æfingar, sem hafa gengið vel, en frumsýning verður á Akureyrarvöku 26. ágúst kl. 15:00 í Samkomuhúsinu á Akureyri. Þess má geta að frítt verður inn á viðburðinn í tilefni Akureyrarvöku og verður hleypt inn á meðan húsrúm leyfir. Þetta er því tilvalið tækifæri til að kynnast hinu skemmtilega formi óperunnar.

Tónskáld: Gian Carlo Menotti

Tónlistarstjóri: Matthildur Anna Gísladóttir

Leikstjóri: Jenný Lára Arnórsdóttir

Söngvarar: Elfa Dröfn Stefánsdóttir, Unnur Helga Möller, Ívar Helgason og Edda Björk Jónsdóttir.