Ein með öllu og Íslensku sumarleikarnir á Akureyri

Ein af stærstu ferðahelgum ársins, verslunarmannahelgin, er framundan. Búast má við því að fjöldi fólks leggi leið sína til Akureyrar þar sem fram fara fjölskylduhátíðin “Ein með öllu” og Íslensku sumarleikarnir.

Dagskrá hátíðarinnar er mjög fjölbreytt og má sem dæmi nefna tívolí, Kirkjutröppuhlaup, tónleika í miðbænum þar sem fram koma m.a. KK Band, Gréta Salome og Páll Óskar, hæfileikakeppni unga fólksins, viðburðurinn Mömmur og Möffins hefur verið endurvakinn í Lystigarðinum, markaður á Ráðhústorgi, Íslandsmót í fjallabruni og Townhill kirkjutröppubrun á fjallahjólum.

Hápunktur helgarinnar er Sparitónleikarnir á leikhúsflötinni á sunnudagskvöldið þar sem fram koma m.a. KÁ – AKÁ, Aron Hannes, AmabAdama, 200.000 Naglbítar, Úlfur Úlfur og Rúnar Eff og hljómsveit. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00 Pollurinn myndar svo fallegan bakgrunn fyrir kvöldið en rauð blys verða tendruð um borð í bátum sem sigla um svæðið og dagskránni lýkur á dúndrandi flugeldasýningu.

Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar og viðburði má finna inn á www.einmedollu.is einnig er hægt að fylgjast með á facebook.