Glæsilegir keppendur frá UFA á MÍ 11-14 ára

Keppendur frá UFA gerðu góða ferð á Meistaramót Íslands fyrir 11-14 ára sem haldið var á Kópavogsvelli um helgina. Alls fóru 18 krakkar ásamt þjálfurum sínum, Sonju Sif Jóhannsdóttur og Helga Pétri Davíðssyni, og fararstjórum.

Keppendur UFA lönduðu samtals 16 verðlaunum sem skiptust í fimm gull, sjö silfur og fjögur brons. Langflestir keppendur bættu einnig sinn persónulega árangur sem alltaf er stór sigur fyrir hvern og einn.

Í 14 ára flokki stúlkna varð Glódís Edda Þuríðardóttir þrefaldur Íslandsmeistari í 100 metra hlaupi, 80 metra grindahlaupi og langstökki. Hún setti jafnframt mótsmet í grindahlaupinu þegar hún hljóp á tímanum 12,12 sekúndum, og í langstökkinu með stökk uppá 5,30 metra. Sara Ragnheiður Kristjánsdóttir hlaut tvenn silfurverðlaun, í 100 metra hlaupi og 80 metra grindahlaupi, og tvenn bronsverðlaun, í hástökki og langstökki. Ester Rún Jónsdóttir hlaut silfurverðlaun í 600 metra hlaupi og brons í spjótkasti. Glódís Edda, Sara Ragnheiður og Ester Rún ásamt Andreu Björg Hlynsdóttur mynduðu svo sveit UFA sem varð Íslandsmeistari í 4×100 metra boðhlaupi í þessum aldursflokki.

Bergur Ingi Óskarsson hlaut silfur í 600 metra hlaupi og spjótkasti í flokki 14 ára pilta.

Í flokki 13 ára stúlkna varð Hildur Heba Hermannsdóttir Íslandsmeistari í langstökki. Einnig hlaut hún silfurverðlaun í 80 metra grindahlaupi og bronsverðlaun í 100 metra hlaupi.  Aþena Ómarsdóttir hlaut silfurverðlaun í hástökki í sama aldursflokki.

Þetta er sannarlega glæsilegur árangur hjá keppendum UFA sem margir hverjir undirbúa sig nú fyrir Gautaborgarleikana sem haldnir verða í Svíþjóð um næstu helgi.