Fyrsta íslenska viskíveftímaritið lítur dagsins ljós.

 

Hjónin Jakob Jónsson og Eva Vestmann keyrðu nýverið í gang hugmynd sem þau voru búin að velta fyrir sér í nokkur ár, en nú á dögunum settu þau upp fyrsta íslenska veftímaritið alfarið tileinkað viskíi. Jakob er viskísérfræðingur og vinnur sem annar verslunarstjóri í einni þekktustu viskíverslun Bretlandseyja og hefur hann fundið fyrir auknum viskíáhuga hjá Íslendingum undanfarið.

,,Það kom þannig til að eftir ársdvöl á Ítalíu komst konan mín inn í draumaháskólann svo að við fluttum okkur til London. Ég fékk vinnu hjá Royal Mile Whiskies nánast strax og hef unnið mig upp innan fyrirtækisins, fengið mikla menntun og reynslu innan geirans og nú er það orðið svo að við erum tveir sem rekum útibúið í London, en upphaflega verslunin er í Edinborg, höfuðborg viskísins svo að segja.

Eva er menntuð í ljósmyndun, grafískri hönnun og hreyfimyndagerð og sér hún alfarið um uppsetningu og útlit á veftímaritinu sem ber heitið Viskíhornið. Jakob hefur skrifað um viskí í allnokkur ár, haldið smakkanir og fer reglulega til Skotlands til að halda í viðskiptasambönd við helstu framleiðendur þar, en þau hjónin, sem eru bæði frá Akureyri, hafa nú verið búsett í London sl. 9 ár. Þau eru einnig með nokkra gestaskrifara á sínum snærum sem skrifa einna helst smakkanir, enda af nógu að taka.

,,Við erum bara nýfarin í loftið en höfum nú þegar fengið frábærar viðtökur, enda nánast engin fræðsla né lesefni um viskí til á íslensku. Það er mikill áhugi að vakna á Íslandi, sérstaklega hjá ungu fólki, Maltviskífélagið í Reykjavík er mjög virkt og það eru bara mjög spennandi tímar framundan í viskíheiminum, t.d. hjá Eimverk sem eru að framleiða fyrsta íslenska viskíið, Flóka.“

,,Við fáum mikið af fyrirspurnum sendar á Viskíhornið og ég hef mjög gaman að veita ráðgjöf. Ég er líka að taka inn íslenska framleiðslu hægt og rólega í Royal Mile, en við seljum heilmikið annað en bara viskí, við erum t.d. alltaf að bæta við bjórúrvalið okkar og tökum einna helst inn lítt þekkta ‘craft’ bjóra sem er afar vinsælt“ segir Jakob ritsjóri Viskíhornsins, en þau hjónin eru alsæl með viðtökurnar og eru mjög spennt fyrir framhaldinu enda með mörg járn í eldinum. ,,Þetta er bara rétt að byrja!

Linkar
Viskíhornið: www.viskihornid.com

Eimverk: https://flokiwhisky.is/

Royal Mile Whiskies: www.royalmilewhiskies.com