Sástu ekki brotið dómari?

BrotValkyrja S. Á. Bjarkadóttir skrifar.

Íþróttir barna á aldrinum 3-5 ára þekkjum við flest. Börnin byrja ung að hafa skoðanir á því hvað þeim langar að æfa og ferlið fer í gang, skrá barnið, kaupa það sem þarf og borga æfingagjöld, mæta á æfingar og kenna barninu metnað? Eða hvað? Hegðun okkar foreldra þegar á reynir hvað þetta varðar, höfum við rýnt í hana? Erum við meðvituð um hana?

Við mætum á æfingar, börnin spennt og við foreldrarnir í geðshræringu af spenning og kvíða, litla barnið manns rokið af stað að láta drauminn um fótboltaæfingarnar rætast. Foreldrar og forráðamenn sitja annaðhvort eftir á bekknum og týna sér í símanum að fletta upp og niður facebook eða í spjalli við næsta mann.
Æfingin sem slík og barnið fær litla sem enga athygli.

Eftir ákveðið margar æfingar er svo komið að móti. Barnið búið að bíða með  eftirvæntingu og ákveðið í að gera sitt besta, gera mömmu og pabba stolt.
En hvað gerum við foreldrarnir? Nú er athyglin 100%, nú skal sko vera betri en Siggi í næsta húsi. Við stöndum tryllt á hliðarlínunni, látum öllum illum látum, görgum jafnvel á börnin að gera svona eða hinseginn og dómarinn fær að heyra það,  „Sástu ekki brotið dómari? Andskotinn er þetta!“
Pressan af okkar hálfu á þau er algjör. Við gleymum okkur algjörlega, við gleymum að þetta eru litlu börnin okkar í stóra heiminum, litlu manneskjurnar okkar að láta draumana sína rætast. Er þetta það sem við viljum? Eru þetta fyrirmyndirnar sem við ætluðum að vera?

Mikilvægast að mínu mati er að við sínum börnunum okkar athygli við það sem það er að gera. Sínum þeim þá virðingu sem þau eiga skilið. Þó svo að þau geri ekki eins vel og við viljum, þá eru þau samt að gera sitt besta og hver erum við að dæma það? Hvaða rétt höfum við til þess að pressa á þau og láta illa á hliðarlínunni?

Kæru foreldrar sjáum frekar það jákvæða heldur en að einblína á það neikvæða. Verum til staðar, verum baklandið og kletturinn þeirra. Börnin okkar eru með þjálfara sem gera sitt besta í að leiðbeina þeim og það gerir börnunum ekkert gott að hafa marga að atast í sér á línunni. Tökum frekar á móti þeim eftir leik og hrósum þeim, þau gerðu sitt besta, meira gátu þau ekki gert.

Látum ekki daglegt amstur og stress hafa áhrif á okkar framkomu. Börnin læra það sem fyrir þeim haft, það er gott að hafa það í huga, svo eru það líka þau sem velja fyrir okkur elliheimilin í framtíðinni. Eins og vitur maður sagði einu sinni : Draslið bíður meðan þú sýnir barninu regnbogann, það gerir regnboginn hins vegar ekki.

Valkyrja S. Á. Bjarkadóttir
Tjarnarlundur 11 G
600 Akureyri
784-4669
adalprinsessan@gmail.com